Verð á vörukörfu ASÍ hækkaði mest um 2,3% í Samkaupum-Úrval á milli verðmælinga í 21. og 23. viku, þ.e. þriðju viku maímánaðar og fyrstu vikunnar í júní.

Í 10-11 hækkaði verð körfunnar um 1,6%, í Hagkaupum um tæplega 1% og í Bónus um 0,6% á sama tímabili.

Mest lækkaði verð vörukörfunnar í Nóatúni, um 3,1% og í verslunum Nettó og Kaskó um 2%. Verð breyttist innan við 0,5% í öðrum verslunarkeðjum á tímabilinu.

Þetta kemur fram á vef ASÍ.

„Þessar upplýsingar gefa neytendum færi á að fylgjast með því hvernig verð á almennri innkaupakörfu, með helstu mat- og drykkjarvörum til heimilisins, hefur breyst í einstaka verslunarkeðjum frá því fyrri part aprílmánaðar. Frá því verðmælingar hófust í apríl hefur vörukarfan lækkað mest í stóru lágvöruverðskeðjunum, Bónus og Krónunni um 6-7% en hækkunin er 3-4% í flestum hinum matvöruverslunarkeðjunum,“ segir á vef ASÍ.

Lágvöruverðsverslanir

Verð vörukörfunnar hækkaði mest í Bónus, um 1,9%, á milli verðmælinga í 21. og 22. viku. Í Kaskó lækkaði karfan um tæp 2% og í Krónunni um 1,5%.

„Verðbreytingarnar má í öllum tilvikum að mestu rekja til breytinga á verði kjötvara sem sveiflast mikið á milli vikna,“ segir á vef ASÍ.

Þá lækka grænmeti og ávextir nokkuð í Bónus og Krónunni og verð á mjólkurvörum, ostum og eggjum hækkar í öllum lágvöruverðsverslunum.

Viðsnúningur varð á verði körfunnar í Bónus og Krónunni milli mælinga í 22. og 23. viku. Þá hækkaði karfan mest í Krónunni um 2% en lækkaði um 1,3% í Bónus. Mest lækkun á milli vikna var hins vegar í Nettó, 2,3%. ASÍ segir að enn eru það miklar sveiflur í verð á kjötvörum og grænmeti og ávöxtum sem hafa mest áhrif til breytinga.

Aðrar verslunarkeðjur

Í öðrum matvöruverslunarkeðjum hækkaði verð körfunnar mest um 3,1% í Samkaupum-Strax og um 2,8% í Samkaupum-Úrval á milli mælinga í 21. og 22. viku. ASÍ segir að rekja megi hækkunina að mestu til hækkana á kjötvörum en einnig hækka liðirnir ýmsar matvörur og brauð og kornvörur nokkuð. Í 10-11 hækkaði verð vörukörfunnar um 1,4% á milli vikna en breytingin var innan við 0,5% í öðrum verslunum.

Litlar breytingar urðu á verði körfunnar í flestum þessara verslana á milli mælinga í 22. og 23. viku en karfan lækkaði mest um 2,9% í Nóatúni og hækkunin frá fyrri viku í Samkaupum-Strax gekk að stórum hluta til baka en þar lækkaði verð körfunnar um 2,7%.