ASÍ kannaði verð á algengum mat- og drykkjarvörum fimmtudaginn 27. mars. Verð á þeim vörum sem könnunin tók til hefur hækkað um allt að 10-30% frá því í maí í fyrra, samkvæmt frétt á heimasíðu samtakanna.

Mest hafði verðhækkunin orðið á brauðmeti, pasta og hrísgrjónum. Einnig hækkaði verð á íslenskum agúrkum og á sykri mikið. Verðið hækkaði þó almennt minna í lágvöruverðsverslunum en öðrum verslunum.

Í frétt samtakanna kemur fram að þær verðbreytingar sem birtust í könnuninni séu í ágætu samræmi við verðbreytingar á mat og drykk í vísitölu neysluverðs.

Verðbreytingarnar sem teknar eru inn í könnunina miða við breytingar á verði verslana milli verðmælinga verðlagseftirlits ASÍ í byrjun maí 2007 og verðkönnunar frá 27. mars 2008. Hafa verður í huga að mæld eru þau verð sem eru í gildi á hverjum tíma í versluninni og því geta tilboðsverð haft umtalsverð áhrif á verðbreytingar einstakra vara.

Hægt er að skoða samanburð á einstökum vörum á pdf-skjali hér.