*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 25. ágúst 2017 09:49

„Verksmiðjan fór í gang of fljótt“

Forsvarsmenn Thorsil hyggjast ótrauðir byggja aðra kísilmálmverksmiðju í Helguvík, en enn vantar fjármögnun eftir að lífeyrissjóðir drógu sig út.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Thorsil hyggst hefja framkvæmdir við kísilmálmverksmiðju sína í Helguvík á seinni hluta næsta árs. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa engin áform um að koma að rekstri verksmiðju United Silicon sem er á sama iðnaðarsvæði. Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ segir vandræði hennar ekki hafa haft áhrif á viðræðurnar við Thorsil að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í maí sagði Hákon Björnsson framkvæmdastjóri Thorsil að stefnt væri að því að hefja framkvæmdirnar á fyrri hluta næsta árs svo ljóst er að enn eru tafir á verkefninu.

Ekki gert á réttan hátt hjá United Silicon

John Fenger stjórnarformaður Thorsil segir aðalmálið að ekki megi líkja þeim saman við það sem ekki hafi gengið upp, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær hefur United Silicon verið gert að loka verksmiðjunni.

„Þetta hefur því miður ekki verið gert á réttan hátt hjá United Silicon og við höfum átt í reglulegum samskiptum við alla þá sem koma að okkar verkefni og þar með talið Reykjanesbæ og gert þeim grein fyrir stöðu okkar verkefnis,“ segir hann og segir mengunaróhöppin hjá United Silicon koma til því verksmiðjan hafi farið of fljótt í gang.

„Því miður hefur þetta ekki tekist nógu vel hjá United og verksmiðjan fór í gang of fljótt. Við höfum undirbúið okkar verkefni á allt annan hátt og okkar hugsun er að byggja verksmiðju sem er vel hönnuð þannig að svona óhöpp eigi sér ekki stað.“

Starfsleyfi afturkallað en gefið út á ný

Thorsil fékk starfsleyfi í Helguvík í september árið 2015, en það var svo fellt úr gildi í október í fyrra. Eftir að það fékk svo nýtt leyfi í febrúar barst önnur kæra gegn rekstrinum, en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði henni um miðjan júlí. Hún kom frá Landvernd, Náttúrusamtaka Suðvesturlands og íbúa í Reykjanesbæ.

„Við vorum búnir að loka fjármögnuninni þannig þetta tafði okkur um eitt ár. Eins og líka hefur komið fram í blöðum hafa einhverjir lífeyrissjóðir dregið sig til baka og þá væntanlega vegna United.­ Við erum því að ganga frá því að fylla skarðið og klára fjármögnunina á næstu misserum,“ segir John en í heildina kostar fjármögnun verksmiðjunnar 275 milljónum Bandaríkjadala.

Það nafngildir um 30 milljörðum íslenskra króna, en áætlað er að framleiðsla hefjist á fyrri hluta ársins 2020. Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra furðaði sig á að lífeyrissjóðirnir sem koma að United Silicon hefðu ekki einnig dregið sig út úr þeirri framkvæmd, enda „fólk á móti“ fyrirtækinu eins og hún orðaði það líkt og Viðskiptablaðið sagði frá í gær.

Sumir íbúar telja málið tómt rugl

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir ekki neina stefnubreytingu hafa átt sér stað varðandi Thorsil í bænum.
„Verkefnið hefur aftur á móti ekki verið rætt lengi enda málið í vinnslu hjá þeim,“ segir Kjartan Már. „Við vitum að það eru íbúar sem telja það vera tómt rugl en á meðan bæjarstjórn hefur ekki ákveðið annað vinnur kerfið að framgangi kísilveranna í Helguvík.“