*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 11. febrúar 2017 10:37

Verksmiðjan minnkuð eða flutt?

Þróunarbanki Þýskalands KfW gerir stífar kröfur um fjármögnun verksmiðju Silicor Materials á Grundartanga.

Trausti Hafliðason
Lóð Silicor Materials er við hlið Norðuráls.

Gert er ráð fyrir að lánsfjármögnun undir forystu Þróunarbanka Þýskalands KfW standi að baki 60% af heildarkostnaði við byggingu verksmiðju Silicor Materials á Grundartanga. Heildarfjárfestingin nemur 120 milljörðum og fyrri hluti fjármögnunarinnar var kláraður í september 2015 eins og greint hefur verið frá.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er ein helsta ástæðan fyrir því að ekki er búið að klára seinni hluta fjármögnunarinnar sú að bankinn gerir mjög stífar kröfur.

Þróunarbanki Þýskalands KfW gerir kröfu um að strategískur iðnaðarfjárfestir verði í hópnum. Það er ekki nóg að fá til dæmis lífeyrissjóði eða fjárfestingarsjóði til að klára dæmið – það skiptir sem sagt máli hverjir fjárfesta. Í tilfelli Silicor Materials væri strategískur iðnaðarfjárfestir til dæmis fyrirtæki á hrávörumarkaði. Staðan á þeim markaði er ekki sérlega góð um þessar mundir og skiptir þá ekki máli hvort horft er á ál-, stál- eða kísiliðnaðinn. Olíufélög koma líka til greina en staðan á olíumarkaði er heldur ekki góð.

Mögulegt að minnka verkefnið

Ef Silicor Materials tekst ekki að mæta þessum kröfum bankans gæti fyrirtækið hugsanlega minnkað verkefnið, til dæmis um helming, og fjármagnað það alfarið með eiginfé. Ef þessi leið yrði farin væri fyrirtækið ekki bundið af því að ræða við iðnaðarfjárfesta. Þessi leið myndi líka leysa annan vanda en hann er sá að Silicor er í dag einungis búið að tryggja sér helming af þeirri orku sem þarf til að knýja 19 þúsund tonna verksmiðju.

Heildarraforkuþörf verksmiðjunnar er 85 Mw. Í september árið 2015 skrifuðu forsvarsmenn Silicor Materials undir samning við Orku náttúrunnar (ON) um kaup á 40 Mw af raforku. Eftir standa 45 Mw og enn á eftir semja um kaup á þeirri orku. Skilmálasamningur var hins vegar gerður við Landsvirkjun en orkufyrirtækið getur hins vegar ekki afhent þá orku sem upp á vantar fyrr en árið 2020.

Ef verkefnið verður minnkað um helming dugar sá samningur sem gerður hefur verið við Orku náttúrunnar til að keyra 10 þúsund tonna sólarkísilverksmiðju. Samkvæmt heimildum blaðsins hefur þessi hugmynd um að minnka verkefnið um helming verið viðruð á meðal forsvarsmanna Silicor Materials.

Rís verksmiðjan í Skandinavíu?

Sú staða gæti einnig komið upp að fyrirtækinu takist ekki að klára fjármögnun verksmiðjunnar á tilsettum tíma eða innan þess ramma sem frestir Faxaflóahafna og Orku náttúrunnar kveða á um. Ef sú staða kemur upp er ekki útilokað að verkefnið verði flutt annað en bæði Norðmenn og Danir hafa sýnt sólarkísilverksmiðju Silicor Materials áhuga. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa forsvarsmenn Silicor fengið þau skilaboð frá skandinavísku löndunum að ef verkefnið verði ekki að veruleika á Íslandi, eða ef vilji sé til að reisa aðra sólarkísilverksmiðju, þá séu þau tilbúin í viðræður.

Ein helsta ástæðan fyrir því að þessi lönd hafa áhuga á verkefninu er að sólarkísilverksmiðjan þykir umhverfisvæn og að hún mun skapa mörg störf. Þegar verksmiðjan er fullbyggð munu á bilinu 400 til 450 manns starfa við hana.

Þrátt fyrir erfiðleika við fjármögnun telja forsvarsmenn Silicor Materials að verksmiðjan verði að veruleika og að hún verði byggð á Grundartanga. Þetta staðfestir Davíð Stefánsson, ráðgjafi Silicor Material á Íslandi. „Okkar plön eru að byggja á Íslandi en ef það verður ekki hægt þá verður verksmiðjan byggð annars staðar,“ segir Davíð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.