Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra segir að eftirsóknarvert væri að ná samningum um fulla fríverslun við Bretland í kjölfar útgöngu landsins út úr Evrópusambandinu.

Guðlaugur bendir jafnframt á að Ísland er opnasta EFTA ríkið fyrir fríverslun, með fæst svokölluð rauð ljós og mun frjálslyndara í þeim efnum en Evrópusambandið. Þannig væru 90% tollnúmera tollfrjáls hjá Íslendingum en einungis 26% meðal ESB ríkja.

Fríverslun með sjávarafurðir á borðinu

Eins og Viðskiptablaðið hefur rætt um hefur embættismönnum verið uppálagt að reyna að ná fullri fríverslun með sjávarútvegsafurðir, en Guðlaugur segir Íslendinga vera viðkvæma fyrir slíku þegar kemur að landbúnaðarvörum.

Þetta var meðal þess sem fram koma á fundi Félags atvinnurekenda í morgun um þýðingu Brexit - útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, fyrir fyrirtæki á Íslandi.

Sumar landbúnaðarafurðir viðkvæmari en aðrar

Guðlaugur Þór sagði að sumar landbúnaðarvörur væru viðkvæmari en aðrar þegar kæmi að viðræðum um fríverslun við Bretland og vísaði í samninga síðustu ríkisstjórna við Evrópusambandið.

Þannig virtist sala á lambakjöti ekki vera viðkvæmt, né sala á fugla- og svínakjöti, en hins vegar virtust sem mjólkurvörur og nautakjöt væri þeim mun viðkvæmari.

Sagði hann að þetta þyrfti því að ræða í meiri smáatriðum, því Íslendingar vildu halda áfram að framleiða góðar mjólkur- og kjötvörur, meðan ekki ætti að vernda verksmiðjubúskap hvað sem það kostaði.