Verktakafyrirtækið KNH á Ísafirði sem er stærsta jarðvinnuverktakafyrirtækið á Vestfjörðum, hefur ákveðið að segja upp 60 af 84 starfsmönnum nú um mánaðamótin. Sævar Óli Hjörvarsson, einn af eigendum KNH, segir að fyrirtækið sé bara að reyna að undirbúa sig undir veturinn.

KNH sendi starfsmönnum fyrirtækisins bréf í síðustu viku þar sem farið er yfir þá stöðu sem KNH stendur frammi fyrir. Fyrirtækið er nú með í gangi stórframkvæmdir við vegagerð í Vopnafirði og við Raufarhöfn. Þá er fyrirtækið búið með um 70% af framkvæmdum við lagningu Suðurstrandarvegar sem á að ljúka 2011.

Sævar Óli segir ástæðu áhersluna hafa verið lagða á framkvæmdir fyrir austan að undanförnu þar sem Suðurstrandarvegur sé á undan áætlun.

„Við höfum verið heppnir með veður fyrir austan en ef það fer allt á kaf í snjó þó verðum við stopp og nokkuð ljóst að við getum ekki verið með allan þennan mannskap á launum. Við erum bara að búa okkur undir það. Ef hægt verður að halda verkinu áfram reynum við auðvitað að ráða sem flesta aftur. Við vonum bara það besta.

Sigurður Óskarsson, framkvæmdastjóri KNH, segir að það hafi verið tekin sú ákvörðun að segja upp öllum þeim sem eru með eins mánaðar uppsagnarfrest.

Allt Íslendingar

„Þetta eru allt Íslendingar en um helmingur starfsmanna eru Vestfirðingar, aðrir koma aðallega af Norðurlandi. Maður vonar samt að þeir geti flestir haldið áfram ef það kemur ekki harður vetur. Við erum að vinna í þannig efni fyrir austan sem eru erfið í frosti og því er maður hræddur um að þurfa að stoppa í kannski tvo til þrjá mánuði. Þá er ekki mögulegt annað en að segja starfsmönnum upp. Það er ekki hægt að semja við Vinnumálastofnun um að taka við þeim á meðan. Einhvern hluta gætum við þó flutt í Suðurstrandarveg. Annars höfum við ekki fyrirliggjandi verkefni nema út næsta ár ef ekkert verður af frekari framkvæmum. Þá er spurning hvort við eigum ekki að draga saman starfsemina og teygja verkin yfir tvö ár."