Eitt umsvifamesta byggingafélag landsins Ris ehf. hefur verið selt. Kaupandi er Stafna á milli ehf. og annaðist VBS fjárfestingarbanki hf. ráðgjöf við sölu. Kaupverðið er trúnaðarmál segir í frétt.


Ris ehf. var stofnað árið 1966 og var í upphafi rekið sem byggingarvöruverslun í Ármúla í Reykjavík. Árið 1968 yfirtók Jörundur Kristinsson fyrirtækið og fluttist það þá til Garðabæjar. Við það breyttust áherslur, lögð var áhersla á innflutning og lagningu tjörupappa á húsþök auk innflutnings á milliveggjaplötum og hleðslusteini segir í frétt.


Sonur Jörundar, Kristinn Jörundsson, og tengdasonur, Jóhann Guðni Hlöðversson, tóku við rekstri fyrirtækisins 1993 og breyttu því í það form sem það er í dag, þ.e alhliða byggingafyrirtæki sem er virkt á útboðsmarkaði auk þess að byggja og selja íbúðir í eigin reikning. Umsvifin hafa aukist jafnt og þétt undanfarin ár og Ris ehf. býr yfir yfirgripsmiklum tækjakosti sem er nauðsynlegur til að reka byggingafyrirtæki.


Meðal þeirra verkefna sem Ris ehf. hefur komið að má nefna byggingu tónlistarhússins í Kópavogi, fimleikahúss og tengibyggingu við íþróttahúsið á Seltjarnarnesi, glæsilegrar íþróttamiðstöðvar Hauka á Ásvöllum, skólabyggingar fyrir Reykjavíkurborg og Garðabæ, skrifstofuhúsnæðis fyrir SKÝRR hf, vörugeymslu fyrir LÍF hf. Þá hefur Ris ehf. hefur byggt og afhent fjölda íbúða í Kópavogi og Garðabæ á undanförnum fimm árum.
Kristinn Jörundsson fyrrverandi forstjóri Ris ehf.: "Það er að sjálfsögðu skrítin tilfinning að segja skilið við Ris nú eftir að hafa starfað við rekstur félagsins í hartnær 40 ár en það er með stolti sem ég kveð og það er sérstaklega ánægjulegt að félagið fer nú í hendur traustra aðila sem ég veit að munu halda merki félagsins á lofti og hlúa áfram að öflugum hópi starfsmanna."

Engilbert Runólfsson, nýr stjórnarformaður Ris ehf.: "Ris hefur vaxið ört undanfarin ár og teljum við framtíðarmöguleika félagsins mikla og að þeir samræmist vel okkar framtíðarsýn. Verkefnastaða félagsins er góð og hefur það yfir að ráða öflugu starfsfólki sem er nauðsynlegt í okkar fagi. Við hyggjumst styrkja og efla rekstur félagsins án þess þó að gera á honum stórvægilegar breytingar og lítum björtum augum fram á veginn.?

Magnús Sch. Thorsteinsson, forstöðumaður Fyrirtækjasviðs VBS fjárfestingarbanka hf. segir í tilkynningu: "Það var ánægjulegt að koma að þessum viðskiptum og við teljum framtíðarmöguleika Ris ehf. mikla.. Við erum sannfærð um að viðskiptin munu reynast farsæl bæði kaupendum og seljendum og lýsum sérstakri ánægju með að þeir skyldu hafa valið okkur í verkefnið. Af hálfu VBS fjárfestingarbanka komu fjölmargir að málinu og enn kom berlega í ljós að starfsmenn VBS eru samstilltur hópur sem nær árangri í þágu viðskiptavina sinna."

Nýir eigendur munu taka við félaginu frá og með 20. ágúst 2007 og er Þorgeir Jósefsson nýr forstjóri þess.