Opinberar tölur sýna svart á hvítu að það er farið að lifna yfir byggingageiranum eftir mikla lægð strax eftir bankahrun. Hann á þó langt í land með að ná þeirri stöðu sem var fyrir bankahrunið. Þetta sýna bæði tölur Seðlabankans um magn innflutts sements og tölur yfir innflutning á steypustyrktarjárni.

Tölur um innflutning á steypustyrktarjárni sýna að bæði á árunum 2006 og 2007 var flutt inn yfir 52 þúsund tonn. Þessi tala var komin niður i 33 þúsund árið 2008 og 10 þúsund tonn árið 2009. Innflutningur nær svo lágmarki árið 2010 þegar 7.800 tonn eru flutt inn. Salan hefur svo aukist jafnt og þétt og í fyrra voru tæplega 11.600 tonn flutt inn. Svipað mynstur sést þegar innflutningur á sementi er skoðaður.

Árin 2006 og 2007 skera sig úr því þá eru flutt inn yfir 300 þúsund tonn á hvoru ári fyrir sig. Árið 2008 minnkar innflutningur svo niður í 231 þúsund tonn og hrapar svo niður í 98 þúsund tonn árið 2009. Árin 2010 og 2011 er innflutningurinn rétt yfir 60 þúsund tonnum, 2012 eykst hann upp í 72 þúsund tonn og fer svo í 85 þúsund tonn árið 2013.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .