Sérstakur saksóknari hefur ákært eiganda verktakafyrirtækis fyrir nokkurra milljón króna fjárdrátt. Honum er meðal annars gefið að sök að hafa tekið fjórar milljónir í reiðufé út af reikningi fyrirtækisins í janúar fyrir fjórum árum og notað í eigin þágu. Ríkisútvarpið greinir frá.

Maðurinn er einnig ákærður fyrir skilasvik en til vara fyrir fjárdrátt með því að taka níu sinnum fé út af bankareikningi félagsins, um 2,8 milljónir, í febrúar og maí 2011 og þannig misnota aðstöðu sína sem eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Nokkrum mánuðum áður hafði árangurslaust fjárnám verið gert hjá fyrirtækinu og búið var tekið til gjaldþrotaskipta um miðjan maí fyrir tveimur árum.

Í ákæru sérstaks saksóknara er manninum einnig gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína með því að láta leigjanda íbúðar, sem var í eigu verktakafyrirtækisins, greiða leigugreiðslur frá október 2010 til febrúar 2012, inn á reikning annars einkahlutafélags sem var í eigu hans, um 1,5 milljón.