Samninganefnd álversins í Straumsvík hefur ákveðið að falla frá kröfu sinni um auknar heimildir til verktöku á meðan aðrir kjaraliðir eru ræddir við samninganefnd starfsmanna félagsins. Þetta var ákveðið á fundi hjá Ríkissáttasemjara í dag, að því er segir í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Ákvörðunin var tekin eftir að samninganefnd starfsmanna ítrekaði kröfur sínar um að aukin verktaka skyldi ekki heimiluð í álverinu.

Starfsmenn óttast að með aukinni verktöku geti störf 80 fastráðinna starfsmanna verið í húfi í álverinu. Verði ekki leyst úr þessu atriði, ásamt öðrum í kjaradeilunni, mun verkfall hefjast þann 1. september næstkomandi. Stjórnendur álversins hafa hins vegar haldið því fram að komi til verkfalls muni þurfa að loka álverinu - þar séu öll störfin undir.