*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Innlent 18. september 2007 12:26

Verðlagning margra fyrirtækja hagfelld fyrir langtímafjárfesta

Ritstjórn

Greiningardeild Glitins telur að verðlagning margra íslenskra fyrirtækja sé hagfelld um þessar mundir fyrir langtímafjárfesta  en bætir við að erfit sé að spá fyrir um þróun markaða til skamms tíma.

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 7,6% það sem af er ársfjórðungnum, að sögn greiningardeildarinnar. Hæst fór vísitalan í 9.016 stig þann 18. júlí og hafði þá hækkað um 8,6% á þriðja fjórðungi 2007.

"Væntingar um gott rekstrarár og ytri vöxt voru markaðnum lyftistöng framan af fjórðungnum en bein og óbein áhrif af húsnæðislánakrísunni í Bandaríkjunum hafa keyrt markaði niður síðustu vikur. Ljóst má vera að áhrifanna af umróti markaðanna mun gæta í uppgjörum íslenskra hlutafélaga á þriðja fjórðungi 2007," segir greiningardeildin.

Hún segir að áhrifanna gætir m.a. í tapi af hlutabréfaeignum og hagnaðs/taps af gjaldeyrisstöðu sem er mismunandi eftir félögum.

"Enn er óvíst hversu langvarandi áhrifin verða á fjármálamörkuðum heimsins og því hversu varanleg áhrifin verða á langtímahorfur um vöxt og viðgang íslenskra félaga," segir greiningardeildin.