Verðlag í október hækkaði um 0,76% frá fyrri mánuði og var hækkunin meiri en greiningardeildir Arion banka, MP banka og Íslandsbanka höfðu spáð.

Í Markaðspunkti Arion banka í dag segir að frávik frá þeirra spá megi einkum rekja til hækkunar á húsnæði og flugfargjöldum. Greiningardeildin hafði spáð 0,5% verðlagshækkun.

Gjaldskrárhækkun Orkuveitu Reykjavíkur, hækkun matarverðs, húsnæðisliðurinn og flugfargjöld eru kölluð sökudólgar verðbólgunnar í markaðspunkti Arion banka. Húsnæðisliðurinn kom á óvart en hækkunin nam 0,11% í mánuðinum. Segir að það megi nánast eingöngu rekja til hækkunar á markaðsverði húsnæðis.

„..sem kann að koma nokkuð spánskt fyrir sjónir! Hagstofan tekur mið af mánaðarbreytingum fasteignaverðs skv. kaupsamningum frá Fasteignaskrá Íslands (FMR). Þetta er einkum athyglisvert því að tölur frá FMR síðustu þrjá mánuði sýna aðra mynd og hefur húsnæðisliðurinn nánast staðið í stað skv. þeim mælingum (reyndar á FMR eftir að birta október verðmælingu sína). Þó skal benda á að afar erfitt er að spá fyrir um húsnæðisliðinn þar sem sambandið milli mælinga Hagstofunnar og FMR hefur ekki alltaf verið mjög sterkt.“

Spá 0,45% verðbólgu út árið

Greiningardeildin gerir ráð fyrir að verðlag hækki um 0,45% til viðbótará þessu ári. Gert er ráð fyrir að verðbólgan hækki í næsta mánuði um 0,3% og 0,15% í desember. Gangi sú spá eftir verður 12 mánaða verðbólga 2,5% í árslok.