Hagstofan birti í dag neysluverðsvísitölu fyrir júnímánuð. Hún hækkaði um tæp 0,8% frá fyrra mánuði sem er jafn mikil hækkun og í síðasta mánuði og líkt og þá er þessi hækkun umfram spár helstu aðila á markaði. Hækkun á húsnæði og bensíni vega þar þyngst að þessu sinni en samanlagt skýra þessir tveir liðir tæplega ¾ hluta hækkunarinnar. Húsnæði hækkar um 1,6% sem leiðir til um 0,3% hækkunar á vísitölunni og bensín hækkaði um 6,2% sem leiðir sömuleiðis til tæplega 0,3% hækkunar á vísitölunni í heild. Einnig er líklegt að áhrif kjarasamninga séu enn að koma fram í hækkun á vöruverði.

Það sem af er þessu ári hefur bensín hækkað um rúm 13% og húsnæði hefur hækkað um rúmlega 5%. Neysluverðsvísitalan í heild hefur hækkað um 2½% og er því ljóst að verðlagsspá ráðuneytisins frá því í vor sem hljóðar uppá 2½% hækkun á milli ársmeðaltala 2003 og 2004 mun varla rætast. Líklegra er að árshækkunin muni nema í kringum 3%.

Í vefriti fjármálaráðuneytisins er bent á að lækkun á heimsmarkaðsverði olíu á undanförnum dögum kemur ekki fram í þessari nýjustu mælingu Hagstofunnar á neysluverðsvísitölunni. Haldi sú lækkun áfram gæti það dregið úr verðlagshækkun ársins.