Stjórnvísi veitir verðlaun fyrir Ársskýrslu ársins í þriðja sinn á morgun miðvikudaginn 5. september nk. Þátttakendur í valinu eru sjálfkrafa þau hlutafélög sem skráð eru í OMX Nordic Exchange á Íslandi (Kauphöllinni). Afhendingin fyrir Ársskýrslu ársins 2006 fer fram í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar en Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra mun afhenda verðlaunin því félagi sem þykir hafa gefið út bestu ársskýrsluna fyrir árið 2006. Bjarni Ármannsson, fyrrum forstjóri Glitnis banka flytur ávarp.

Markmið verðlaunanna er að vekja athygli á nauðsyn þess að vandað sé til verka við gerð ársskýrslna og undirstrika mikilvægi þeirra í upplýsingagjöf fyrirtækisins. Þess er vænst að verðlaunin séu fyrirtækjum hvatning til að gera enn betur á þessu sviði. Stjórnvísi er framkvæmdaaðili verðlaunanna en Kauphöllin bakhjarl verkefnisins.

Sérstök áhersla við val á Ársskýrslu ársins 2006 var lögð á stjórnarhætti fyrirtækja og umfjöllun um launakjör stjórnenda skv. reglum fyrir útgefendur verðbréfa í Kauphöllinni. Dómnefnd verðlaunanna er skipuð þeim Þorkeli Sigurlaugssyni, framkvæmdastjóra nýsköpunar- og þróunarsviðs Háskólans í Reykjavík, Heimi Haraldssyni, löggiltum endurskoðanda og Stefáni Halldórssyni, framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga.

Glitnir banki hlaut verðlaun fyrir Ársskýrslu ársins 2005. Auk Glitnis hlutu Össur og Bakkavör Group viðurkenningu fyrir sínar ársskýrslur.