Þrjú fyrirtæki voru sérstaklega verðlaunuð fyrir góðan árangur í Viðskiptasmiðjunni – Hraðbraut nýrra fyrirtækja á lokahófi sumarannar Viðskiptasmiðjunnar 23. júlí síðastliðinn. Þetta voru fyrirtækin WomensFactory sem framleiðir hátísku regnkápur, Ævintýri sem er fyrirtæki sem sérhæfir sig í grænum hótelrekstri og upplifunarferðamennsku og Clara sem hátæknifyrirtæki sem mælir umtal á netinu. Öll fyrirtækin hafa náð miklum árangri á skömmum tíma og eru þegar á meðal áhugaverðustu sprotafyrirtækja landsins. Þetta eru fyrirtæki sem eru líkleg til að skapa mörg störf á næstu mánuðum og árum.

Viðskiptasmiðjan – Hraðbraut nýrra fyrirtækja var sett á fót fyrir ári síðan og hefur sannað mikilvægi sitt með því að þjálfa bæði nýja og reyndari frumkvöðla til þess að búa til öflugri fyrirtæki. Reyndir framkvæmdastjórar eins og framkvæmdastjórar Stjörnu-Odda og Trackwell hafa notað tækifærið til að endurskipuleggja fyrirtæki sín og skapa nýja framfarasókn. Fyrirtæki eins og Clara og Gogoyoko hafa náð að finna fókusinn og stefnuna sem getur leitt þau til farsællar framtíðar enda er mikill áhugi á meðal fjárfesta að taka þátt í þessum verkefnum. Loks hefur Viðskiptasmiðjan hjálpað mörgum nýjum frumkvöðlum að koma fyrirtækjum sínum á fót og eiga allavega sum þeirra eftir að vekja mikla athygli á næstu misserum.

Klak – Nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins hefur byggt upp Viðskiptasmiðjuna sem hluta af þeirra þjónustu sem fyrirtækið veitir frumkvöðlum. Hátt á þriðja tug kennara koma að þeim áttatíu námskeiðum sem eru kennd á ári hverju í Viðskiptasmiðjunni og fyrirtækin hafa aðgang að á fjórða tug ráðgjafa og mentora sem er fólk úr fjárfestingarsjóðum, viðskiptaenglar, forstjórara og stjórnarmenn stórfyrirtækja, endurskoðendur, lögfræðingar og sérfræðingar í tæknifræði.  Um þrjátíu frumkvöðlafyrirtæki geta tekið þátt í Viðskiptasmiðjunni á hverri önn.