Þeir Jóhannes Kristinsson og Pálmi Haraldsson keyptu 89% hlut í Iceland Express fyrir réttu ári síðan fyrir um það bil 250 milljónir króna, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins úr hópi fjölmargra fyrrverandi hluthafa í félaginu. Félagið í heild var því verðmetið á innan við 300 milljónir á þessum tíma þar sem ekki var um neinar umtalsverðar skuldir að ræða.

Í júlí í sumar fór eign Pálma og Jóhannesar yfir 90% og fóru þeir þá fram á að aðrir hluthafar framseldu sína hluti. Munu þeir fyrrnefndu fljótlega hafa fallist á að verðmæti félagsins væri um 500 milljónir. Það var hins vegar fjarri verðhugmyndum smærri hluthafa og fór svo að lokum að miðað var við verðmætið 1.100 milljónir.

Samkvæmt öðrum heimildum blaðsins er Iceland Express nú verðmetið á 3-4 milljarða króna. Samkvæmt því hefur verðmæti félagsins tífaldast á einu ári og jafnvel gott betur. Takist að selja á þessu verði er ljóst að hagnaður Pálma og Jóhannesar verður á bilinu 2,6 til 3,6 milljarðar. Hafa verður í huga að algjör viðsnúningur er sagður hafa orðið á rekstri Iceland Express, úr 300 milljóna tapi í fyrra í 300 milljóna hagnað í ár.