Fyrsta verðmatið á íslensk-bandaríska fyrirtækinu Cyntellect, sem er tækjaframleiðandi fyrir lyfja- og líftækniiðnaðinn, hefur litið dagsins ljós og er sanngjarnt markaðsvirði (e. fair market value) metið á 60,7 milljónir Bandaríkjadala (4,5 milljarðar króna) sem gefur gengið 3,41 Bandaríkjadal á hlut og að heildarvirði (e. enterprise value) þess er metið á 46,7 milljónir Bandaríkjadala (3,4 milljarðar króna).

Cyntellect verður skráð á hinn nýja markað Kauphallarinnar iSEC, sem ætluð er minni og meðalstórum fyrirtækjum, náist að safna 10 milljónum Bandaríkjadala í útboði til fjárfesta sem lýkur þann 30. júní. Útboðsgengið er 2,5 Bandaríkjadalir.

Verðmatið var unnið af TSG Partners. Það er alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfir sig í líftækniiðnaði og er með höfuðstöðvar sínar í New York. Gerð er 25% ávöxtunarkrafa til Cyntellect því verðmatið byggist á að fyrirtækið er áhættufjárfesting sem er komin langt á veg (e. late state venture capital). Að sögn TSG Partners hefur gengið vel að koma lykilvörunum, LEAP og CellXpress, á markað.

TSG Partners telur líklegt að Cyntellect verði yfirtekið af stórfyrirtæki, líklegast árið 2009 eða árið eftir, sem væri þá möguleg útgönguleið fyrir fjárfesta. Sigma Aldrich hefur þegar fjárfest í félaginu og er það til merkis um áhuga stóra aðila.

Cyntellect vinnur á nokkrum mörkuðum sem vaxa um 12-30% á ári og er með vel varin einkaleyfi, að mati TSG Partners sem styrkir stöðu þess. Fyrirtækið mun nýta sér þá forystu sem það hefur skapað sér með tækni sem er í sérflokki, þar sem það hafi fleiri eiginleika en keppinautarnir.

Þá telur ráðgjafafyrirtækið að tíminn vinni með Cyntellect hafi keppinautar áhuga á að smíða sambærilegt tæki, eða um tveggja og hálfsárs forskot en á þeim tíma geti fyrirtækið byggt upp viðskiptavinahóp og hannað töluvert af búnaði fyrir LEAP.

Cyntellect er í samstarfi við Sigma Aldrich um sölu og dreifingu á vörum þess í yfir 35 löndum, sem TSG Partners finnst mikið til koma ásamt því að Summit Pharamacuticals (dótturfyrirtæki Sumitomo) sér um slíkt hið sama í Japan.