Niðurstaða fyrsta verðmats greiningardeildar Íslandsbanka á Mosaic Fashions er 493 milljónir punda sem er 52,2 milljarðar kr. miðað við ISK/GBP 106. Verðmatið jafngildir genginu 18,0 krónum á hlut. "Í ljósi verðmatsins mælum við með að fjárfestar kaupi bréf í Mosaic Fashions og er það ráðgjöf okkar til lengri tíma. Ráðgjöf okkar til skemmri tíma er að yfirvoga bréfin í vel dreifðum eignasöfnum sem taka mið af íslenska markaðinum. Verðmatið var sent viðskiptavinum Íslandsbanka eftir lokun markaða síðastliðinn þriðjudag," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þar benda þeir á að þeir eiga von á miklum söluvexti næstu tvö ár (26% og 15%) vegna mikillar fjölgunar verslana en svo hægi jafnt og þétt á vextinum og er miðað við 4% árlegan vöxt eftir árið 2012. Með því að sameina stoðdeildir næst fram sparnaður og er unnið að þeim verkefnum. Ekki síður mikilvægt er að með því að sameina stoðeiningar eru væntingar um að ná megi meiri framlegð af sölu með betri vörustýringu. Á hinn bóginn er viðbúið að vörumerkin gangi í gegnum erfið sölutímabil þar sem hönnunin fellur neytendum ekki vel í geð. Því er það afstaða okkar að miða við að EBITDA framlegð verði að jafnaði 14% af sölu á komandi árum. Í verðmatinu er frjálst sjóðstreymi til eigenda núvirt með 12,3% nafnávöxtunarkröfu," segir greiningardeild Íslandsbanka.