Verðmatsgengi á Marel er 75,0 krónur á hlut, samkvæmt nýju verðmati frá greiningardeild Glitnis, og helst óbreytt frá verðmati greiningardeildar sem birtist í nóvember.

?Við metum virði Marel á 27,4 milljarða króna. Verðmatsgengið er 1,3% undir gengi á markaði (76,0) og 1,4% yfir útboðsgengi í hlutafjárútboði félagsins í september. Ráðlegging okkar til fjárfesta er að halda bréfum í Marel horft til lengri tíma,? segir greiningardeildin.

Markgengi til sex mánaða er 76 krónur á hlut, samkvæmt verðmatinu. ?Markgengið í verðmatinu í nóvember var 80,0 til samanburðar. Helstu ástæður fyrir lægra markgengi eru meðal annars fólgnar í því að fyrir liggur að afkoma félagsins á næstu tveimur fjórðungum (1F og 2F 2007) verður lituð af samþættingarkostnaði í tengslum við yfirtökur síðasta árs (AEW Delford og Scanvægt).

Af þeim ástæðum búumst við ekki við mikilli hreyfingu á verði á bréfum í félaginu á næstu mánuðum. Aðrar mikilvægustu forsendur í verðmatinu eru lítið breyttar frá síðasta verðmati,? segir greiningardeildin.