Neytendastofa gerði verðkönnun og athugun á ástandi verðmerkinga í ísbúðum dagana 18-22. júlí. Athugaðar voru allar ísbúðir á höfuðborgar- og Árborgarsvæðinu auk valinna verslana sem selja ís úr vél á sama svæði. Úrtak könnunarinnar var 24 verslanir.

22 af 24 verslunum seldu 1 lítra af ís í boxi. Lægsta verð á 1 lítra af ís úr vél í boxi var 488 krónur og hæsta verð var 890 krónur. Munur á hæsta og lægsta verði var því 82%. Meðalverð reyndist vera 674 krónur.

Verðmerkingar voru víðast hvar í mjög góðu lagi, samkvæmt frétt Neytendastofu um málið. Verðmerkingum var ábótavant í fjórum verslunum og í einni var ís úr vél ekkert verðmerktur. Fimm verslanir fá því ábendingu frá Neytendastofu um hvað megi betur fara í verðmerkingum.