Heildarafli íslenskra skipa í nóvember sl. drógst verulega saman miðað við sama mánuð fyrir ári eða um 40.200 tonn. Í nóvember 2004 var aflinn 137.600 tonn en var aðeins 97.400 tonn í liðnum mánuði. Þetta kemur fram í frétt frá Hagstofunni.

Milli nóvembermánaða 2004 og 2005 dróst verðmæti fiskaflans saman um 11,1%, á föstu verði ársins 2003. Það sem af er árinu 2005 hefur verðmæti fiskaflans, á föstu verði ársins 2003, dregist saman um 3% miðað við 2004.

Botnfiskafli var rúm 44.300 tonn samanborið við rúm 46.600 tonn í nóvember 2004 og dróst því saman um tæp 2.300 tonn. Þar af nam þorskaflinn ríflega 20.400 tonnum og er það tæpum 2.100 tonnum minna en í fyrra. Ýsuaflinn nam tæplega 9.400 tonnum sem er tæpum 600 tonnum minni afli en 2004. Hins vegar jókst ufsaafli um rúm 600 tonn frá fyrra ári, var tæp 7.900 tonn í nóvember í ár.

Flatfiskafli var tæp 1.500 tonn sem er samdráttur um ríflega 600 tonn frá fyrra ári, þar af veiddust rúm 600 tonn af grálúðu, rúm 300 tonn af skarkola og rúm 160 tonn af sandkola. Á sama tíma í fyrra nam grálúðuaflinn rúmum 700 tonnum og skarkola- og sandkolaflinn, hvor um sig, ríflega 400 tonnum.

Síldaraflinn var rúmlega 50.700 tonn og dróst saman um 4.700 tonn frá fyrra ári. Samdráttur hélst áfram í kolmunnaveiðunum og var einungis rúmum 300 tonnum landað í nóvember miðað við ríflega 31.000 tonn á sama tíma í fyrra.

Skel- og krabbadýraafli var rúm 500 tonn og dróst saman um 1.200 tonn frá 2004. Rækjuafli var um 400 tonn og dróst saman um tæp 200 tonn. Mestu munar þó um kúfiskafla en engum kúfiski var landað í nóvember miðað við 1.000 tonna afla á sama tíma í fyrra.

Heildarafli íslenskra skipa það sem af er árinu 2005 nemur 1.595.700 tonnum og er það tæplega 47.200 tonna minni afli en á sama tímabili í fyrra. Botnfiskafli var 455.100 tonn sem er 2.400 tonnum minna en árið áður. Flatfiskafli dróst saman, nam 25.500 tonnum í ár miðað við 29.300 tonn árið 2004. Uppsjávarafli dróst einnig saman, um 22.900 tonn. Stafar það af 149.500 tonna samdrætti í kolmunnafla sem þó er vegin upp af aukningu í síldarafla um 49.000 tonn og loðnuafla um 77.200 tonn. Skel- og krabbadýraafli var tæpum 18.100 tonnum minni í ár en í fyrra.