Fjárfesting Baugs í eignarhaldsfélaginu Big Food Group (BFG) hefur þrefaldast að verðmæti frá kaupunum fyrir þremur árum síðan. BFG hefur meðal annars matvörubúðakeðjuna Iceland á sínum snærum. Telegraph greinir frá þessu í dag.

Baugur fór fyrir hópi fjárfesta árið 2005 og greiddi 326 milljónir fyrir BFG. Í kjölfarið var ráðist í ýmsar breytingar á samstæðunni – einingar seldar fyrir 100 milljónir punda, endurfjármögnun átti sér stað sem gerði stjórnendum kleift að ná 350 milljónum út og verðmat helstu eigna var uppfært. Í dag sitja eigendur BFG á hagnaði upp á 1,2 milljarða punda.

Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs, segir í samtali við Telegraph að fjárfestingin í BFG sé ein sú best heppnaðasta sem Baugur hefur gert. „Sú aðferð að taka samstæðuna af markaði, brjóta hana upp og setja rétta fólkið í stjórnendastöður hefur virkað geysilega vel. Iceland hefur sýnt sérstaklega góða afkomu,” segir hann.

Gunnar ber jafnframt lof á Malcom Walker, stofnanda Iceland, í viðtalinu. Walker gekk aftur til liðs við Iceland árið 2005 eftir að Baugur kom inn í félagið, og gerði miklar breytingar á rekstri keðjunnar, meðal annars með því að draga úr vöruúrvali um 35%.

EBIDTA Iceland fyrsta árið undir eignarhaldi Baugs nam 60 milljónum punda. Á síðasta ári var sú upphæð komin upp í 97 milljónir og hagnaður er áætlaður 130 milljónum á næsta fjárhagsári.