Ætla má að verðmæti Landsvirkjunar liggi á bilinu 45 til 65 milljarðar króna. Þetta er verðmæti eigin fjár félagsins, þ.e. þegar búið er að draga frá skuldir félagsins. Virði félagsins liggur því í kringum bókfært virði þess sem var um 53 milljarðar króna 30. júní síðastliðinn segir í frétt Viðskiptablaðsins.

Í nýútkominni bók um sögu Landsvirkjunar frá 1965 til dagsins í dag gerir Jón Þór Sturluson hagfræðingur tilraun til að meta virði fyrirtækisins. Verðmatsbil hans liggur á bilinu 43 til 82 milljarðar króna eftir því hvaða ávöxtunarkröfu hann notar. Seinni talan miðast við þá 5% ávöxtunarkröfu sem Landsvirkjun studdist við þegar arðsemi Kárahnjúkavirkjunar var metin. Velt hefur verið upp þeim möguleika af Valgerði Sverrisdóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra að fyrirtækið verði einkavætt eftir 2008. Það mun væntanlega þýða hærri fjármagnskostnað þar sem ríkisábyrgðin mun ekki fylgja með í kaupunum.

Úttekt er gerð á þessu máli á síðu 10 í Viðskiptablaðinu í dag.