Markaðsvirði danska lyfjarisans Lundbeck hefur fallið um 1,6 milljarða danskra króna, eða sem svarar til hátt í 25 milljörðum íslenskra, frá því að fyrirtækið tilkynnti fyrir tæpri viku að það hefði keypt söluréttinn á lyfinu Flurizan. Lyfið er ætlað til meðhöndlunar á vægum einkennum Alzheimer-sjúkdómsins. Lundbeck borgaði 500 milljónir danskra króna, eða 7,7 milljarða íslenskra, fyrir rétt á sölu lyfsins í Evrópu, Tyrklandi, Ísrael og Rússlandi.

Alzheimersjúkdómurinn er sjúkdómur í heila, sem veldur því að frumur í heila rýrna og skemmast, og eru fyrstu einkenni iðulega vitglöp á borð við skert minni og erfiðleikum við að átta sig á umhverfi og tíma. Hann er ólæknandi enn sem komið er, þó að ýmis lyf þyki hægja á sjúkdómnum.

Tilraunum ekki lokað

Fjárfestar og greiningaraðilar hafa verið tortryggnir á þessi kaup lyfjarisans með þeim afleiðingum af hlutabréf í félaginu hafa lækkað um 6,3% undanfarna daga, eða sem svarar til 1,6 milljarða danskra króna í markaðsverðmæti sem fyrr segir. Áhyggjur fjárfesta stafa einkum af því að nýlegar tilraunir með lyf á vegum Lundbeck þykja ekki hafa gefið góða raun, og tilraunir með Flurizan er ekki lokið enn. “Markaðurinn óttast ný vonbrigði og á þeim hefur ekki verið hörgull hjá Lundbeck seinustu ár,” hefur fréttavefurinn business.dk eftir Martin Parkhøi, greiningaraðila. Það eykur ekki tiltrú þeirra að félagið á eftir að sannfæra evrópsk heilbrigðisyfirvöld um ágæti lyfsins og að það gagnist í baráttunni við Alzheimer-sjúkdóminn. Forsvarsmenn Lundbeck hafa hins vegar tröllatrú á lyfinu og segjast gera sér vonir um að lyfið muni seljast fyrir um 700 milljónir dollara, nái það góðri fótfestu á lyfjamarkaði.