Stjórn fjárfestingafélagsins Kers hefur ákveðið að selja allt hlutafé félagsins í Olíufélaginu efh., sagði Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður félagins, í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir ástæðurnar vera breyttar áherslur á fjárfestingastefnu félagsins, sem miða að því að auka enn frekar vægi fjárfestinga erlendis. Ker tók nýlega þátt í kaupum hóps fjárfesta á 21% hlut Straums-Burðaráss í Íslandsbanka og eignaðist Ker í kringum 2% hlut í Íslandsbanka í viðskiptunum.

"Efnahagsumhverfið á Íslandi er mjög gott og þetta er góður tími til að selja," sagði Ólafur. "Markaðsstaða Olíufélagsins á Íslandi er sterk," sagði hann. Ólafur bætti við að nú væri góður tími til að losa fjármagn sem gæti verið nýtt til annarra fjárfestinga, en vildi ekki tjá sig frekar um framtíðaráform félagsins.

Ólafur sagðist ekki geta tjáð sig um verðhugmyndir en tók fram að kaupverðið "hlypi á milljörðum." Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gæti félagið verið til sölu fyrir um 12-14 milljarða. Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hefur umsjón með söluferlinu. Ólafur sagði bankann hafa samband við mögulega kaupendur, sem áður hafa sýnt félaginu áhuga. Hann benti á að Olíufélagið væri lítið skuldsett og telja sérfræðingar það þess vegna geta verið góðan fjárfestingakost fyrir fjárfestingasjóði sem hafa áhuga á skuldsettum kaupum. Einnig sagði hann fyrirtæki sem hafa áhuga á sterkum íslenskum fyrirtækjum og fyrirtæki, sem sjá fyrir sér samlegðaráhrif og eru í svipuðum rekstri, geta verið hugsanlega kaupendur.

Líklegt er að hin olíufélögin þurfi leyfi frá samkeppnisyfirvöldum til að kaupa Olíufélagið en hugsanlegur kaupendahópur hefur breikkað vegna breytinga lögum á orkusölu og félög sem hafa áhuga á að hasla sér völl í orkugeiranum gætu litið á Olíufélagið sem stökkpall, sagði Ólafur.

Olíufélagið ehf. var stofnað í desember 2001 og tók hinn 1. janúar 2002 yfir þá starfsemi Olíufélagsins hf., nú Kers hf., sem tengdist upphaflegri kjarnastarfsemi þess félags. Starfsemi Olíufélagsins snýr að innflutningi og sölu á eldsneyti auk þess sem Olíufélagið hefur þróað rekstur þægindavöruverslana á neytendamarkaði og sölu ýmissa rekstrarvara á fyrirtækjamarkaði. Olíufélagið er stærsti söluaðili eldsneytis á Íslandi og seldi á síðasta ári um 350 milljónir lítra af eldsneyti.