Heildarverðmæti (EV) Skipta, móðurfélags Símans, hefur aukist úr 74,6 milljörðum króna þegar Síminn var keyptur af ríkinu árið 2005 í 96,5-107,2 milljarða króna nú.

Aukningin er 22-33 milljarðar króna, eða 29-44%.

Ranglega sagt að verðmætið hafi lækkað

Í Viðskiptablaðinu í dag er sagt að verðmæti Símans hafi lækkað töluvert frá því að ríkið seldi fyrirtækið árið 2005 og var þar átt við verðmæti hlutafjár, eða markaðsverð félagsins.

Þetta er ekki rétt því að markaðsverð hlutafjár skipta hefur hækkað úr 30,8 milljörðum króna í 49-60 milljarða króna miðað við það bil sem er á útboðsgengi félagsins vegna skráningar í Kauphöllina 19. mars nk. Verðmæti hlutafjárins hefur því hækkað um 59%-95% frá því Skipti keyptu Símann árið 2005.

Skýringin á því að sagt var að verðmætið hefði minnkað þegar það hefur í raun aukist er sú, að miðað var við upphæðina sem Skipti greiddu fyrir Símann, þ.e. 67 milljarðana sem ríkið fékk fyrir Símann. Skipti var hins vegar skuldsett þannig að eigið fé þess var um 30 milljarðar króna en skuldir um 37 milljarðar króna.