Verð á skuldabréfum Glitnis hefur sáralítið hreyfst þrátt fyrir fréttir í síðustu viku að skuld bankans uppá tæpa 140 milljarða króna miðað við núverandi gengi evru hefði hugsanlega ekki verið færð í bækur bankans. Enn gera fjárfestar ráð fyrir að um 24% af heildarverðmæti skuldabréfsins fáist til baka þegar gert verður upp við kröfuhafa.

Skýringin á þessu getur verið sú að skuldabréfaeigendur vissu af þessari skuld Glitnis og því kom misræmi í bókhaldi Glitnis þeim ekki á óvart. Þeir voru því búnir að verðleggja bréfin samkvæmt því. Önnur skýring getur verið sú að væntar endurheimtur hafi verið meiri, en þá hefði það átt að endurspeglast í verði bréfanna.

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, sendi fyrr í dag frá sér yfirlýsingu „[v]egna frétta fjölmiðla síðustu daga um liðlega 750 milljóna evra misræmi sem fram kom við afstemmningu á bókhaldi Glitnis nýverið og sem greint var frá á fundi með kröfuhöfum í síðustu viku...“

Þar segir:

„Umrætt misræmi kom fram við afstemmningu á bókhaldi Glitnis við utanaðkomandi aðila, en sú vinna fer nú fram hjá Glitni og er liður í undirbúningi slitastjórnar og skilanefndar áður en tekin verður afstaða til krafna í bú Glitnis. Frestur til að lýsa kröfum í búið rennur út þann 26. nóvember næst komandi. Ekki er því um það að ræða að komið hafi í ljós ný krafa á hendur bankanum frá einhverjum einum aðila eins og ranglega hefur verið haldið fram í einstaka fjölmiðlum.“