Síðastliðinn miðvikudag var aðgerðum Evrópusambandsins gegn innflutningi á eldislaxi hætt. Samhliða voru aðgerðir gegn meintum undirboðum Norðmanna á eldislaxi hafnar. Eins og margoft hefur komið fram í Stiklum, vefriti utanríkisráðuneytisins, hefur eldislax verið undir smásjánni hjá Evrópusambandinu á undanförnu ári.

Fyrir réttu ári síðan kröfðust hagsmunaaðilar í fiskeldi í Skotlandi og
Írlandi þess að Evrópusambandið gripi til aðgerða til þess að stemma stigu við hraðfallandi verði á mörkuðum fyrir eldislax í Evrópusambandinu og slæmri rekstrarafkomu fiskeldisfyrirtækja í þessum tveimur helstu fiskeldislöndum Evrópusambandsins.

Bresk stjórnvöld þrýstu mjög á að gripið yrði til slíkra aðgerða og ákvað framkvæmdastjórnin í kjölfar þess að hefja svonefndar bráðabirgðaverndaraðgerðir gegn innflutningi á eldislaxi til ESB í ágúst á síðastliðnu ári. Aðgerðirnar náðu til allra helstu ríkja sem flutt hafa eldislax inn til Evrópusambandsins, þ.m.t. Íslands, en þó var Chile undanskilið þessum aðgerðum. Íslensk stjórnvöld mótmæltu harðlega þessari ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar.

Dönsk stjórnvöld vísuðu málinu í kjölfarið til ráðherraráðs Evrópusambandsins þar sem ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar fékk ekki nægilegan stuðning til þess að hljóta staðfestingu og féll hún því úr gildi í desember 2004. Eigi að síður ákvað framkvæmdastjórnin að grípa til
frekari verndaraðgerða í febrúar á þessu ári og í þetta sinn tóku aðgerðirnar einnig til innflutnings frá Chile. Af því tilefni ítrekuðu íslensk stjórnvöld mótmæli sín gegn þessum aðgerðum Evrópusambandsins.

Samhliða verndaraðgerðunum hefur framkvæmdastjórn ESB rannsakað
fullyrðingar þess efnis að norsk laxeldisfyrirtæki stundi undirboð á mörkuðum í ESB.

Framkvæmdastjórnin virðist nú telja að nægilega rökstuddar vísbendingar séu um meint undirboð norska laxeldisfyrirtækja sem réttlæti að gripið sé til beinna aðgerða gegn Noregi. Af þeim sökum telur framkvæmdastjórnin ástæðulaust að takmarka innflutning frá öðrum löndum með verndaraðgerðum samhliða aðgerðum gegn Noregi, einkum þar eð norsk
laxeldisfyrirtæki hafa yfirburðarstöðu á mörkuðum í Evrópusambandinu. Framkvæmdastjórnin tók því í síðustu viku ákvörðun um að hætta verndaraðgerðum samhliða gildistöku aðgerða gegn innflutningi frá Noregi og öðlaðist ákvörðunin gildi sl. miðvikudag.

Að sögn Grétars Más Sigurðssonar, skrifstofustjóra viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, hafa íslensk eldisfyrirtæki ekki skaðast af þessum verndaraðgerðum en á móti komi að íslensk fyrirtæki séu að kaupa mikið af norskum eldislaxi, þannig að aðgerðirnar geti haft áhrif á þau viðskipti.
Grétar Már sagði ennfremur að svo hefði getað farið að verndaraðgerðir framkvæmdastjórnarinnar hefðu getað stórskaðað íslensk eldisfyrirtæki en með nánu samstarfi við framkvæmdastjórnina hafi tekist að afstýra því. Ísland hefði þó áhyggjur af þeim aðgerðum sem framkvæmdastjórnin beiti
Norðmenn nú, enda séum við stórir kaupendur á norskum
eldislaxi.

Í samtali við Stiklur sagði Guðbergur Rúnarsson hjá Landssambandi fiskeldisstöðva að samtökin væru ánægð með að verndaraðgerðir ESB hefðu verið felldar niður gagnvart Íslandi. Guðbergur lýsti ennfremur yfir ánægju með aðkomu og vinnu utanríkisþjónustunnar í málinu, sem hefði átt
stóran þátt í farsælum lyktum málsins.

Byggt á Stiklum, vefriti utanríkisráðuneytisins.