Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) varar við því að tillögur sem hafa komið fram á Bandaríkjaþingi kunni að grafa undan samkomulagi ESB og Bandaríkjastjórnar um aukið frjálsræði í flugsamgöngum yfir Atlantsála (e. open skies agreement).

Flugfélög í Evrópu og Bandaríkjunum hafa sett sig í stellingar til þess að nýta sér möguleika samkomulagsins en það á að taka gildi í mars á næsta ári. Á sama tíma liggja fyrir samgöngunefnd fulltrúardeildar Bandaríkjaþings tillögur sem myndu takmarka eignarhald erlendra fjárfesta á þarlendum flugfélögum enn frekar. Slíkt myndi ganga í berhögg við yfirlýst markmið annars stigs samkomulagsins um aukið frjálsræði í flugsamgöngum milli aðildarríkja ESB og Bandaríkjanna.

Fyrsta stig samningsins felur meðal annars í sér að evrópskum flugfélögum verður heimilt að fljúga til hvaða flugvallar sem er í Bandaríkjunum, frá hvaða stað sem er í Evrópu. Það sama gildir um bandarísk flugfélög auk þess sem að þau mega fljúga frjálst innan aðildarríkja ESB. Hinsvegar fá evrópsk flugfélög ekki aðgang að innanlandsmarkaðnum í Bandaríkjunum og samkomulagið felur ekki í sér breytingu á lögum um erlent eignarhald í flugrekstri þar í landi. Til stendur þó að tekið verði á þeim málum í öðru stigi samkomulagsins, en viðræður um útfærslu þess eiga að hefjast fljótlega. Samkvæmt bandarískum lögum mega erlendir fjárfestar ekki fara með meira en fjórðung atkvæðaréttar í þarlendum flugfélögum en fyrirheit um að tekið yrði á þeim málum í viðræðum um annað stig samkomulagsins var lykilatriði í að tryggja stuðning sumra aðildarríkja ESB við fyrsta stigið.

Meirihluti demókrata í samgöngunefnd fulltrúardeildarinnar hefur hins vegar lagt fram tillögur sem meðal annars takmarka sjálfdæmi bandaríska samgönguráðuneytisins til þess að skilgreina hvenær flugfélög eru í raun og veru undir stjórn bandarískra ríkisborgara. Fram kemur í frétt Financial Times um málið að ákvæðið muni draga úr svigrúmi evrópskra flugfélaga til þess að starfa á Bandaríkjamarkaði en það gengur þvert á endanleg markmið samningsins um aukið frjálsræði í flugsamgöngum yfir Atlantsála.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.