Viðræður um nýjan hafréttarsamning eru langt á veg komnar. Hann á að snúast um verndun og nýtingu líffræðilegs fjölbreytileika í hafinu utan lögsögu ríkja.

Heimshöfin eru að tveimur þriðju hlutum utan allrar lögsögu og fáar reglur gilda um framferði manna þar. Þar gæti orðið breyting á strax á næsta ári.

Á vegum Sameinuðu þjóðanna hófust fyrir meira en áratug viðræður ríkja um alþjóðasamning um verndun og nýtingu líffræðilegs fjölbreytileika utan lögsögu ríkja.

Þriðji fundur ríkjaráðstefnu um þennan fyrirhugaða samning hófst í Genf 19. ágúst og stendur til 30. ágúst, en fjórði og síðasti fundurinn verður haldinn á fyrri hluta næsta árs og er stefnt að því að á honum náist samkomulag um endanlegan samningstexta.

Arnór Sæbjörnsson, sérfræðingur í atvinnuvegaráðuneytinu, segir ómögulegt að segja hvað gerist á þessum tveimur síðustu fundum.

Víðtækt verkefni

Viðfangsefnið segir hann mjög víðtækt, en með einföldun megi segja að tvennt hafi verið til umræðu. Annars vegar er lífefnaleit í hafi, og er þá átt við nýtingu örvera eða lífvirkra efna í iðnaðarskyni, til dæmis til lyfjaframleiðslu eða nýrra lífrænna verkfæra.

Hins vegar er rætt um umhverfis- og náttúruvernd í hafi, og leggja þar Evrópusambandið, Bandaríkin og fleiri ríki áherslu á að til verði heildstætt netverk verndarsvæða í hafi sem þeki hið minnsta 10 prósent heimshafanna. Jafnframt verði tekið upp heildstæðara fyrirkomulag verndunar, sem feli meðal annars í sér heildstætt mat á umhverfisáhrifum.

Fiskveiðar utan samnings

Ísland er aðili að nokkrum alþjóðasamningum um málefni hafsins, þar á meðal Hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1982 og Úthafsveiðisamningnum frá 1995.

Arnór segir viðræðurnar um þennan nýja samning skyggja á margt annað sem er að gerast í málefnum hafsins, en til framtíðar litið geti þetta komið við hagsmuni Íslands með ýmsum hætti.

„Ísland leggur áherslu á að allar ákvarðanir séu teknar á vísindalegum grundvelli og það eigi ekki síst við um stofnun verndarsvæða í hafi, þar sem fyrir verði að liggja fyrirfarandi mat á því hvaða árangri slíkar aðgerðir geti náð,“ segir Arnór. „Þá leggur Ísland áherslu á að ekki sé grafið undan úthafsveiðisamningnum og að fiskveiðar séu utan við nýjan samning eða hið minnsta ekki settar undir nýtt stjórnskipulag.“

Þá nefnir Arnór að stjórnsýsla erfðaauðlinda á úthafinu sé mjög flókið viðfangsefni, og mörg atriði séu enn óljós hvað þetta varðar. Sum helstu iðnríkin geti illa fellt sig við að erfðaauðlindir verði lýstar sameiginleg arfleifð mannkyns, sem lengi var kappsmál G77-ríkjahópsins, sem er öflugur hópur þróunarlanda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.