Verndartollar Bandaríkjanna á kínverskar vörur tóku gildi í dag. Kínverjar svöruðu í sömu mynt og lögðu strax á samsvarandi tolla á bandarískar vörur.

Í yfirlýsingu frá viðskiptaráðuneyti Kína segir að tollarnir hafi verið lagðir á til þess að verja kjarnahagsmuni landins og hagsmuni þjóðarinnar.

Í frétt frá Reuters segir að tollar ríkjanna hafi verið lagðir á vörur hvors annars að andvirði 34 milljarða dollara hvors. Vörurnar bera nú 25% toll. Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði því jafnframt í gær að hann gæti lagt enn frekari tolla á kínverskar vörur sem fluttar eru til Bandaríkjanna.

Kínversk stjórnvöld saka Trump-stjórnina um að brjóta alþjóðlegar viðskiptareglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Trump hefur sakað kínversk stjórnvöld um að stela bandarískum hugverkum og kennt þeim um viðskiptahalla Bandaríkjanna við Kína.