EFTA dómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi veitt fyrirtækinu Verne Holdings ólögmæta ríkisaðstoð þegar fasteignir á Keflavíkurflugvelli voru seldar fyrirtækinu. Með úrskurði sínum fellst dómstóllinn á rök Eftirlitsstofnunar EFTA sem hafði áður komist að sömu niðurstöðu.

Árið 2008 samdi Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, sem var í eigu íslenska ríkisins, við Verne um að síðarnefnda félagið keypti fimm fasteignir á svæði varnarliðsins við Keflavíkurlfugvöll af Þróunarfélaginu. Samningurinn var gerður vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á gagnaveri.

Kaupverðið nam 957 milljónum króna, miðað við þáverandi gengi. Salan var kærð til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA,  á þeim forsendum að kaupverðið væri það lágt að það fæli í sér ólögmætan ríkisstyrk..