Stjórnendur Verne Holding, sem hyggst reisa gagnaver hér á landi, vonast til þess að loka sínum fyrsta samningi innan skamms. Fulltrúar félagsins voru hér á landi í síðustu viku og áttu fundi með fulltrúum viðkomandi ráðuneyta og fyrirtækjum í orku- og fjarskiptageiranum.

Að sögn Vilhjálms Þorsteinssonar, stjórnarformanns Verne Holding, voru þessar viðræður í góðum anda.

„Við erum að vonast til að ganga frá ákveðnu samkomulagi um lykilaatriði í sambandi við okkar fjárfestingu. Í framhaldi af því vonumst við til þess að loka okkar fyrsta samningi við viðskiptavini okkar. Það er það sem við erum að vinna í þessa daganna.”

Vilhjálmur segir það lykilatriði að ná að klára bindandi samkomulagi við fyrstu viðskiptavinina og um leið að geta boðið þeim nægilega góð kjör til þess að þeir séu tilbúnir til að taka stökkið. Aðeins þannig sé hægt að keyra verkefnið áfram.

Verne Holding hyggst bjóða upp á gagnaversþjónustu sem felst ekki aðeins í geymslu gagna heldur einnig meðhöndlun þeirra.

Aðspurður sagði Vilhjálmur að fjármálakreppan hefði vissulega í för með sér að fyrirtæki drægju saman starfsemi sína en um leið yrðu þau opnari fyrir úthýsingu sem dragi úr fjárfestingarþörf þeirra.

Vilhjálmur sagði að ýmis áföll hefðu dunið á verkefninu, allt frá jarðskjálftum til gjaldeyrishafta. Allt hefði það orðið til að torvelda verkefnið en menn væru þó bjartsýnir á framhaldið.