Áætlanir Verne Global gera ráð fyrir því að skatttekjur fyrirtækisins til ríkis og sveitarfélaga á svæðinu muni nema um 14 milljörðum króna á þessum áratug í formi tekjuskatts fyrirtækisins og starfsfólks þess, fasteignagjalda og annarra gjalda.

Þá er gert ráð fyrir því að fyrirtækið kaupi raforku fyrir um 30-36 milljarða króna.  Þá eru ótaldar tekjur innlendra fyrirtækja sem munu njóta góðs af viðskiptum við Verne þegar fram í sækir.

Þetta kemur fram í bloggi Skúla Helgasonar, formanns iðnaðarnefndar Alþingis á Pressunni en nefndin var að funda um gagnaverið í morgun.

Skúli segir að gegnaverið verði reist til höfuðs atvinnuleysi á Suðurnesjum. Ef gagnaver Verne Global verður að veruleika á Suðurnesjum yrði það veruleg innspýting í atvinnumál á Suðurnesjum segir Skúli.

Í nýlegri skýrslu KPMG kemur fram að afleidd störf vegna gagnaversins gætu orðið um 330 til viðbótar við þau tvö hundruð störf sem verða til annars vegar á sjö ára byggingatíma og hins vegar í gagnaverinu sjálfu.  Hér er um að ræða hátæknistörf, einkum fyrir háskólamenntað fólk á sviði rafmagnsverkfræði, vélaverkfræði og upplýsingatækni auk starfa í byggingaiðnaði og til viðbótar kæmu svo afleidd störf af ýmsu tagi.

Allt í allt má því segja að uppbygging gagnavers á Suðurnesjum myndi skapa ríflega 500 störf þegar allt er talið, á svæði þar sem um 1500 manns eru nú án atvinnu. Það er því mikið í húfi að verkefnið komist til framkvæmda.