Viskí má hiklaust telja æðst sterkra drykkja, en það á alveg sérstaklega vel við að dreypa á því þegar dagurinn er stystur og Kári í jötunmóð kveður sín kuldaljóð úti fyrir. En það yljar ekki aðeins kverkarnar, heldur má einnig halda því fram að það sé um margt persónulegra áfengi en aðrir sterkir drykkir.

Viskí er einstaklega fjölbreytilegt og með misjafnan karakter eftir löndum, svæðum, brugghúsum og undirtegundum, en fyrir vikið eiga flestir viskídrykkjumenn líka sín uppáhaldsviskí, finnst gaman að gera tilraunir, uppgötva nýjar veigar, bera þær saman og þar fram eftir götum. Það er alveg fyrirtakshópíþrótt er glóir vín á skál!

Lengi vel var það tiltölulega einfalt, menn skiptu heiminum um það bil í Skotland og rest; blöndur og óblandað. Síðan eru margt viskí til sjávar runnið. Ekki aðeins hefur þekking og mætur á skosku viskíi orðið útbreiddari og almennari, eftir því sem útfluttum tegundum hefur fjölgað, heldur hefur æ fleiri þjóðum orðið ágengt í viskíframleiðslu og hnattvæðingin orðið til þess að menn geta notið þeirra um allar trissur.

Í Bandaríkjunum er langt síðan bútík-brugghús fóru að láta að sér kveða, en þar hafa stóru brugghúsin raunar öll komið sér upp hjáleigum af því taginu. Japanir hafa lengi búið til fyrirtaksviskí, en það er styttra síðan það varð alvöruútflutningsgrein og á síðustu misserum hafa þau raðað til sín verðlaunum. Ýmsir aðrir hafa náð góðum árangri, þótt þeir séu skemmta á veg komnir. Þannig er hægt að fá Kavalan frá Taívan, Lark frá Tasmaníu, Three Ships frá Suður- Afríku eða Amrut frá Indlandi.

Nánar er fjallað um málið í Eftir vinnu sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .