Segja má að nýjasta mæling IFOvísitölunnar á tiltrú þýskra stjórnenda á efnahagslífi landsins hafi vakið marga af værum blundi. Tiltrú þeirra hefur ekki mælst í lægra gildi frá því að hagkerfið var að stíga fyrstu skrefin eftir sameiningu Austur- og Vestur-Þýskalands við upphaf tíunda áratugar nýliðinnar aldar. Síðustu þrjá mánuði hefur vísitalan ekki fallið jafn hratt frá því olíukreppan skall á árið 1973. Þýska hagvaxtarmaskínan höktir og ekki verður dregið úr alvarleika þess fyrir önnur hagkerfi Evrópu.

Ljóst er að ástandið í þýska hagkerfinu hefur breyst með miklum hraða. Á fyrrihluta ársins undruðu margir sig á því hversu lítil áhrif lánsfjárkreppan og minnkandi eftirspurn í alþjóðahagkerfin virtist hafa á Þýskaland. En skjótt skipast veður í lofti. Hagvöxtur dróst saman í Þýskalandi á öðrum ársfjórðungi og flest bendir til þess að það sama muni gerast á þessum fjórðungi. Gangi það eftir mun ástandið í hagkerfinu uppfylla hefðbundna skilgreiningu á samdráttarskeiði.

Eins og bent er á í breska blaðinu The Daily Telegraph virðist þessi þróun hafa komið gjaldeyrismörkuðum í opna skjöldu – gengi evrunnar hefur lækkað um 10% gagnvart Bandaríkjadal síðan í júlí og hermt er að þessi “óvænta” gengisþróun hafi valdið vogunarsjóðum með stórar skortstöður í dalnum miklu tapi. Skortstöðurnar í dalnum hafa væntanlega verið teknar í þeirri trú að vaxtarmunurinn beggja vegna Atlantsála myndi haldast hár og frammistaða hagkerfa evrusvæðisins yrði öllu skárri en bandaríska hagkerfisins. Um þetta er nú efast.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .