Flugleiðahótel ehf. dótturfélag Icelandair Group hagnaðist um 246 milljónir króna á árinu 2017 samkvæmt ársreikningi félagsins. Dróst hagnaður félagsins saman 114 m.kr. milli ára eða um 31,6%. Rekstrartekjur félagsins námu um 10,8 milljörðum króna og jukust um 609 m.kr. milli ára.

EBITDA nam 895 m.kr á árinu 2017 en var 1.039 m.kr árið á undan. EBITDA framlegð ársins nam 8,3% og dróst saman um 1,9 prósentustig á milli ára. Eignir félagsins námu 5.032 m.kr. í lok árs á meðan skuldir námu 3.382 m.kr. Eiginfjárhlutfall félagsins var því 32,2%.

Flugleiðahótel reka 13 hótel: Reykjavík Natura, Reykjavík Marina, Hilton Reykjavík Nordica, Canopy Reykjavik | City Centre, Reykjavík Konsúlat Hótel og Hótel Alda. Á landsbyggðinni eru Icelandair hótel á Akureyri, við Mývatn og á Héraði. Einnig eru sérleyfishótel á Flúðum, Klaustri, Hamri og í Vík. Þá rekur félagið einnig sumarhótelkeðjuna Hótel Eddu, með 10 hótel um allt land.

Alls rekur félagið 1937 hótelherbergi um land allt. 876 þeirra eru í Reykjavík, 450 eru á landsbyggðinni auk 611 herbergja Hótel Eddu. Þá stefnir félagið einnig að opnun nýs hótels við Austurvöll árið 2019 í samstarfi við Hilton.

Þann 18. maí síðastliðinn tilkynnti Icelandair Group að félagið hygðist hefja söluferli á Icelandair hótelum og þeim fasteignum sem tilheyra rekstri þess.