*

laugardagur, 30. maí 2020
Innlent 10. september 2019 07:11

Verri afkoma hjá Rekstrarvörum

Hagnaður Rekstrarvara hefur lækkað úr 180 milljónum í 48 milljónir króna á tveimur árum.

Ingvar Haraldsson
Aðsend mynd

Hagnaður Rekstrarvara lækkaði úr 104 milljónum króna í 48 milljónir króna á milli áranna 2017 og 2018 en hagnaður ársins 2016 nam 180 milljónum króna. Hagnaður fyrirtækisins hefur þvi lækkað um 73% undanfarin tvö ár. Rekstrarhagnaður lækkaði úr 154 milljónum í 86 milljónir króna milli áranna 2017 og 2018. Rekstrarvörur er sölu- og dreifingarfyrirtæki með hreinlætis-, hjúkrunar- og rekstrarvörur.

Sala jókst úr 2.185 milljónum króna í 2.250 milljónir króna en vörunotkun hækkaði um nærri hundrað milljónir milli ára, úr 1.168 milljónum í 1.263 milljónir króna. Þá nam framleg 986 milljónum króna á síðasta ári en 1.017 milljónum króna árið 2017.

Heildareignir félagsins breytast lítið milli ára og námu tæplega 1,5 milljörðum króna. Þá lækkar eigið fé úr 697 milljónum króna í 683 milljónir króna. Heildarskuldir námu 775 milljónum króna í árslok 2018. Handbært fé frá rekstri lækkar milli ára úr 182 milljónum króna í 24 milljónir króna.

Rekstrarvörur eru einnig með rekstur í Danmörku í gegnum dótturfélagið RV Unique ApS. Salan á Íslandi nam tæplega 1,8 milljörðum króna en ríflega 700 milljónum króna í Danmörku en frá fjárhæðinni dragast millifærslur innan samstæðunnar upp á 230 milljónir króna.

Rekstrarvörur eru í eigu hjónanna Kristjáns Einarssonar og Sigríðar Báru Hermannsdóttur sem stofnuðu fyrirtækið árið 1982. Kristján er jafnframt framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Rekstrarvörur greiddu 80 milljónir króna í arð í fyrra en 110 milljónir króna árið 2017. Greiða á 35 milljónir í arð til hluthafa vegna starfsemi síðast árs.

Laun og launatengd gjöld námu 590 milljónum króna en stöðugildi voru 62 í fyrra. Þar af námu laun Kristjáns 29,9 milljónum króna.

Stikkorð: Rekstrarvörur