Heildarhagnaður fasteignafélaga, smásala, tryggingarfélaga, fjarskiptafélaga og félaga sem gera upp í erlendri mynt dróst saman á milli ára. Í smásölu versnaði afkoma Haga og Festi milli ára, en þau gengu bæði frá stórum kaupum á árinu. Hagar keyptu Olís og Festi varð til eftir kaup N1 á félagi sem áður hét Festi og á meðal annars Krónuna, Nóatún og Elko. Hagnaður Haga frá 1. desember 2017 til 30. nóvember 2018 lækkar úr 2,9 milljörðum í 2,3 milljarða króna á milli ára. Hins vegar jókst hagnaður Skeljungs úr 1,1 milljarði í tæplega 1,6 milljarða króna á milli ára og sögðu forsvarsmenn Skeljungs nýliðið ár það besta í sögu félagsins.

Samanlagður hagnaður fjarskiptafélaganna Símans og Sýnar lækkar úr 4,2 milljörðum króna í 750 milljónir króna á milli ára. Afkoma Sýnar olli vonbirgðum, Stefán Sigurðsson, forstjóri félagsins, sagði starfi sínu lausu eftir að uppgjörið lá fyrir. Sameining félagsins við 365 hefur enn sem komið er ekki gengið jafn vel og vonast var til en hagnaður Sýnar lækkar úr 1,1 milljarði í 472 milljónir króna á milli ára. Hagnaður fasteigna- og leigufélaga, Eikar, Reita, Regins og Heimavalla, lækkar úr 16 milljörðum króna í 5,9 milljarða króna. Það skýrist að stórum hluta af matsbreytingu á fasteignasafni félaganna. Hjá tryggingafélögunum lækkar hagnaður TM og Sjóvá verulega á milli ára en árið var bæði tjónaþungt og þróun á fjármálamörkuðum var félögunum óhagstæð.

Meðal félaga sem gera upp í erlendri mynt (Icelandair Group, Eimskip, HB Grandi og Marel) munar mest um að afkoma Icelandair Group versnaði um 10 milljarða króna á milli ára úr 4 milljarða króna hagnaði í 6 milljarða króna tap. Afkoma félagsins hefur versnað um tæplega 21 milljarð króna frá árinu 2015 þegar hagnaður félagsins nam tæpum 15 milljörðum króna. Hagnaður HB Granda jókst úr 3 milljörðum króna í 4,2 milljarða króna á milli ára. Hún skýrist þó að mestu af sölu á laxeldisfélagi í Chile. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og aðaleigandi félagsins, lét hafa eftir sér við uppgjör félagsins að afkoma félagsins hefði verið óásættanleg í fyrra. Hið sama á við um Eimskip. Vilhelm Már Þorsteinsson, nýr forstjóri Eimskips, sagði að afkoma félagsins hefði verið undir væntingum. Hagnaður Eimskips ríflega helmingaðist milli ára, úr 2 milljörðum króna í 945 milljónir króna.

© vb.is (vb.is)

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .