*

þriðjudagur, 15. október 2019
Innlent 1. september 2018 12:01

Verri afkoma rútufyrirtækja

Afkoma Kynnisferða var 458 milljónum króna verri á árinu 2017 en árinu á undan en félagið tapaði 314 milljónum króna á síðasta ári. Hópbílar stóðu betur af sér erfitt ár í hópferðaakstri og hagnaðist félagið um 196 milljónir á síðasta ári.

Ástgeir Ólafsson
Árið 2017 virðist hafa reyst íslenskum rútufyrirtækjum erfiðara en árið 2016.
Haraldur Guðjónsson

Kynnisferðir ehf., sem reka   rútustarfsemi undir vörumerkinu Reykjavík Excursions, töpuðu 314 milljónum króna á síðasta ári samkvæmt ársreikningi félagins fyrir árið 2017. Neikvæður viðsnúningur var í rekstri félagsins um 458 milljónir frá árinu 2016 þegar félagið hagnaðist um 144 milljónir króna. Tekjur félagsins námu 8,1 milljarði króna á árinu og jukust um tæpan milljarð milli ára. EBITDA félagsins dróst lítillega saman milli ára og nam 1.114 milljónum króna.

Rekstarhagnaður (EBIT) dróst hins vegar saman um 558 milljónir milli ára og nam 50 milljónum króna. Skýrist það af því að á árinu 2016 var bókfærður söluhagnaður rekstrarfjármuna 225 milljónir en bókfært sölutap upp á 11 milljónir var á árinu 2017. Þá hækkuðu afskriftir félagsins um 290 milljónir milli ára. Eignir félagsins námu 9.180 milljónum í lok árs og jukust um 440 milljónir milli ára. Eigið fé var 1.192 milljónir og eiginfjárhlutfall var því 12,9% í lok árs.

Gengur betur hjá Hópbílum

Þrátt fyrir að hagnaður Hópbíla hafi dregist saman um 31 milljón króna milli 2016 og 2017 hagnaðist félagið um 196 milljónir á síðasta ári. Tekjur félagsins námu rúmlega 2,2 milljörðum króna og jukust um 259 milljónir milli ára. EBITDA félagsins nam 521 milljón króna og lækkaði um 15 milljónir milli ára. Rekstarhagnaður nam 254 milljónum og dróst saman um 52 milljónir milli ára.

Eignir félagsins námu 1.487 milljónum króna í lok árs og jukust um 218 milljónir milli ára. Auknar eignir má mestu leyti rekja til þess að 50% hlutur í Airport Direct ehf. er metinn á 250 milljónir í bókum félagsins en félagið var stofnað á árinu 2017. Skuldir félagsins námu 473 milljónum króna í árslok og jukust um 23 milljónir milli ára. Eiginfjárhlutfall Hópbíla var 68,1% í lok 2017.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér