Evrópski seðlabankinn segir horfur í efnahagsmálum dekkri en vænst hafi verið og hefur gefið út niðurfærða hagspá. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir 0,3% samdrætti á evrusvæðinu á þessu ári. Fyrri spá hljóðaði upp á 0,2% samdrátt. Á næsta ári er hins vegar búist við 0,6% hagvexti. Fyrri spá var upp á 1% hagvöxt.

Í netútgáfu breska dagblaðsins Guardian segir að bankastjórn evrópska seðlabankans telji hagkerfi myntsvæðisins í verra ásigkomulagi en áður var talið. Þá bætir ekki úr skák að Englandsbanki lækkaði í gær hagvaxtarhorfur fyrir þetta ár. Ástæður svartsýninnar í Bretlandi eru neikvæð áhrif frá evrusvæðinu.

Seðlabankastjórinn Mervyn King sagði vandann á evrusvæðinu hafa tafið fyrir viðsnúningi í Bretlandi og geti liðið nokkur ár þar til þjóðarskútan muni halda á hagfelldari mið.