Verri kreppa gæti komið í kjölfar þess að Deutsche Bank verði gjaldþrota en skók heimsbyggðina í kjölfar falls Lehman Brothers í september 2008, segir Stefan Wendt, lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík í viðtali við RÚV .

Neita að björgunaráætlun sé í smíðum

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er staða bankans erfið, háar sektargreiðslur af hálfu bandaríska ríkisins hafa sett fjármál bankans í uppnám.

Stjórnvöld í Þýskalandi hafa lýst því yfir að ekki standi til að grípa inn í og bjarga bankanum en þó hafa borist fréttir um að björgunaráætlun sé í smíðum.

Hagnaði rakað saman ólöglega

Samkvæmt Wendt stóð Deutsche Bank af sér hrunið 2007 og 2008 og hagnaðist í raun á óförum annarra banka og fjármálastofnana. Bankinn hafi getað rakað saman hagnaði á hátt sem nú kemur í ljós að var ekki endilega heilbrigður og jafnvel ólöglegar.

Sektargreiðslurnar sem bankinn stendur núna frammi fyrir séu nálega þreföld sú upphæð sem bankinn hafi gert ráð fyrir, en síðan 2012 hefur bankinn þegar greitt um það bil 12 milljarða evra í sektir eða bætur.

Með mestu kerfisáhættuna

Ástæðan fyrir því að hann segir að afleiðingarnar af falli Deutsche Bank veði verri en af falli Lehman bræðra sé hve samtengdur bankinn sé alþjóðlega fjármálakerfinu, bæði hinu þýska og evrópska en einnig hinum bandaríska.

Ítarleg áhættugreining Alþjóða gjaldeyrissjóðsins komst að þeirri niðurstöðu að áhætta Deutsche Bank væri ein sú mesta, ef ekki sú mesta í öllu kerfinu að því er Wendt segir.

Of stór til að mega falla

Hann segir þó að afleiðingarnar af falli hans yrðu of miklar til að bankanum yrði leyft að fara á hausinn.

„Hér takast á tvö sjónarmið, fólki finnst óréttlátt að skattfé þess sé varið til gríðarlegra útláta vegna einkafyrirtækis sem hefur ekki sést fyrir,“ er haft eftir Stefan Wendt í fréttinni.

„Á hinn bóginn verður að vega á móti það tjón sem fall bankans myndi valda fyrirtækjum stórum og smáum og einstaklingum og á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.“