Verslunin Einar Ólafsson hefur nú hafið viðskiptasamband við risann Costco sem nýlega hóf innreið sína á íslenskan markað með miklum hvelli. Verslunin Einar Ólafsson var sett á stofn árið 1934 á Akranesi og er því 83 ára gömul en það þýðir að Verslunin Einar Ólafsson hafi verið lengur starfrækt en Costco sem var stofnuð árið 1976 sem „Price Club“.

Í Facebook færslu verslunarinnar segir að all margar vörutegundir hafi stórlækkað í verði í kjölfar þess að Costco hafi bæst í hóp þeirra birgja sem búðin á viðskipti við. Færsla búðarinnar endar svo á: „Verið ávallt velkomin!“ Í samtali við Vísi, segir Guðni Einarsson, sonur eigenda verslunarinnar, að þetta sé í fyrsta sinn sem að þeim finnst að þau geti í raun og veru keppt við aðrar verslanir.

Áður hefur verið greint frá því að stórir heildsalar og matvælaframleiðendur Íslands hafi í undirbúningi fyrir komu Costco til landsins samið við erlenda birgja um lækkun innkaupsverðs á ákveðnum vörum til heildsölu.