Sprotafyrirtækið MyShopover verður sniðið að ferðamönnum sem vantar aðstoð við að versla í ókunnugri borg. Um er að ræða vettvang þar sem ferðamaðurinn tengist heimamanni sem fer með honum eða henni að versla gegn gjaldi.

Ellen Ragnars Sverrisdóttir er stofnandi og framkvæmdastjóri MyShopover, en hugmyndafræði fyrirtækisins er svipuð og hjá Uber og Airbnb þar sem milliliður tengir saman aðila báðum megin við borðið. Ellen fór að upplifa sterka þörf til að búa til eitthvað sjálf þegar hún starfaði hjá fjárfestingarfyrirtæki í Sviss sem hannaði vefsíðu sem tengdi saman frumkvöðla, fjárfesta og ráðgjafa.

Í tengslum við starfið var hún mikið á ferðalögum og ráðstefnum þar sem frumkvöðlar kynntu hugmyndir sínar og fyrirtæki fyrir fjárfestum. Hún fann þá að þetta var eitthvað sem hún yrði að gera, en hugmyndin þurfti að vera mjög góð til að réttlæta það að fórna sínu starfi.

„Ég var á stanslausum ferðalögum og var yfirleitt í mjög stuttan tíma í hverri borg. Mig langaði oft að kíkja í búðir, en ég vissi aldrei hvert ég átti að fara. Ég nennti ekki að ráfa um og leita að einhverju og Google veitti ekki nógu góðar upplýsingar,“ segir Ellen. Fólk vilji í síauknum mæli umgangast heimamenn og skoða staði utan alfaraleiðar sem finnast oft ekki á leitarvélum.

Byggist á einkunnagjöf

MyShopover mun byggjast á umboðs- og einkunnakerfi líkt og Uber og Airbnb hafa gert með góðum árangri. Ferðamaðurinn borgar fasta upphæð fyrir ákveðinn tíma og hluti ágóðans rennur til MyShopover. Verslunarfélagarnir þurfa að samþykkja ákveðnar reglur og skilmála til að geta boðið fram þjónustu sína. Þá verður sérstakt umbunarkerfi þannig að þeir sem fá reglulega góðar einkunnir geta unnið sér inn gæðastimpla og þannig fengið hærra gjald fyrir sína þjónustu. Fyrirtækið ætlar jafnframt að fá verslanir til liðs við sig, þannig að þær geti greitt áskriftargjald til MyShopover og í staðinn muni fyrirtækið benda viðskiptavinum þangað, jafnvel með afsláttarkóðum.

Nánar er fjallað um MyShopover og fjölda annarra frumkvöðlafyrirtækja í nýja tímaritinu Frumkvöðlum. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.