Stóru afsláttardagarnir Svartur föstudagur (e. Black Friday) og Netmánudagur (e. Cyber Monday) hafa aldrei verið jafn vinsælir meðal íslenskra neytenda og í ár. Dagarnir eiga rætur að rekja til Bandaríkjanna og hafa tiltölulega nýlega tekið sér land hér, en þeir hafa fest kirfilega rætur síðustu ár. Gestur Hjaltason, framkvæmdastjóri Elko, segir dagana hafa gengið talsvert betur í ár en síðustu ár.

Vefverslun það sem koma skal
Heilt yfir segir Gestur veltuaukninguna hafa numið um 10%, en mest hafi aukningin verið í vefverslun, þar sem hún hafi numið fimmtungi milli ára. „Vefurinn er ekki eins frekur á vinnuafl, þótt vissulega þurfi starfsfólk til að ganga frá pöntununum.“

Aðspurður segir hann fyrirtækið hæglega geta annað áframhaldandi söluvexti næstu árin. Hann sér þó fyrir sér að bróðurpartur vaxtarins verði í vefverslun í framtíðinni. „Tvöföldun verslunar væri ekkert vandamál. Þetta spilar vel saman. Vefurinn hjálpar fólki að undirbúa kaupin, eða hreinlega klára viðskiptin þar. Fólk sér í auknum mæli kostina við að sitja bara heima og versla.“

Sexfölduðu veltuna milli ára
Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri Heimkaupa – sem einnig rekur vefverslun Hópkaupa – tekur í sama streng. „Þetta brjálæði tekur verulega í innviðina hjá okkur. Hingað til höfum við lagt áherslu á netmánudag, en ekki tekið þátt í Svörtum föstudegi þar sem hann tilheyrir sögulega meira hefðbundnum verslunum. Í ár fannst okkur vera komin það mikil stemning að við gætum ekki látið hann fram hjá okkur fara, auk þess sem innviðinir eru orðnir aðeins sterkari til að takast á við svona læti. Við ákváðum því að stíga skrefið og sjáum svo sannarlega ekki eftir þeirri ákvörðun,“ segir hann.

Veltan á afsláttartímabilinu jókst úr 10 og hálfri milljón króna án virðisaukaskatts í fyrra, í rétt tæpar 65 milljónir í ár, en netverslunin ákvað að fara sömu leið og Elko og fleiri fyrirtæki og láta svartföstudagstilboðin gilda alla vikuna. Guðmundur segir viðbrögðin ekki hafa látið á sér standa, vikan hafi verið „alveg brjáluð“, og 7-8 þúsund vörur selst að meðaltali á hverjum degi, sem gerir eina vöru á rúmlega 11 sekúndna fresti allan sólarhringinn, eða rúmar 300 vörur á klukkutíma. „Að vera með þetta í viku dreifir álaginu töluvert, þó svo að lokadagarnir séu alltaf margfaldir á við hina.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .