*

laugardagur, 26. september 2020
Innlent 18. nóvember 2019 13:24

Verslum meira innanlands

Kortanotkun Íslendinga jókst um 1,6% milli ára í október. Samdráttur upp á 4,8% erlendis en eykst um 3,5% innanlands.

Ritstjórn
Kortavelta Íslendinga jókst í viðskiptum innanlands en dróst saman erlendis.
Haraldur Guðjónsson

Velta innlendra greiðslukorta jókst um 1,6% að raunvirði milli ára í október. Verulega hefur hægt á kortaveltu erlendis og vöxturinn í október því eingöngu kominn til vegna aukningar í viðskiptum innanlands. 

Þetta er kemur fram í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans frá því í morgun, en velta í verslunum hér á landi jókst um 3,5% milli ára miðað við fast verðlag en dróst saman um 4,8% í viðskiptum erlendis miðað við fast gengi. Til samanburðar var vöxturinn 13% erlendis og 3% í verslunum hér á landi í október í fyrra. 

„Fyrir ári síðan var framlag erlendis og í verslunum hér á landi jafn mikið til vaxtarins í kortaveltu sem þá mældist 5% milli ára. Í ár hefur orðið breyting á þeirri þróun í takt við færri utanlandsferðir Íslendinga, en brottfarir Íslendinga um Leifsstöð voru í október 11% færri en í október fyrir ári síðan. Minna er því verslað erlendis eða í gegnum erlendar netverslanir, og meira verslað hér á landi sem hefur að óbreyttu orðið hagstæðara í takt við veikara gengi íslensku krónunnar. Miðað við þróunina síðustu mánuði má því gera ráð fyrir því að jólaverslunin í ár fari í auknum mæli fram hér á landi og verslunarferðir til útlanda fyrir jólin verði færri en í fyrra,“ segir í Hagsjá Landsbankans.  

„Innflutningur á neysluvörum jókst verulega í september, sem gæti skýrt að einhverju leyti aukna kortaveltu í október. Verðmæti innfluttra neysluvara jókst alls um 7% milli ára sem er mesti vöxtur sem hefur mælst síðan í október í fyrra. Mestu munar um innflutning á varanlegum neysluvörum, svo sem heimilistækjum, sem jókst um 20% milli ára og skýrir 4% af vextinum.“

Fjallað er um nýlegar tölur um veltu í smásöluverslunum samkvæmt virðisaukaskattskýrslum í júlí og ágúst sem gefi til kynna örlítið meiri vöxt en deildin hefur séð milli ára á síðustu tveimur uppgjörstímabilum.  Í júlí og ágúst jókst veltan um 4% að raunvirði milli ára en á sumar- og vormánuðum jókst veltan um 1% að raunvirði. Aukningin í júlí og ágúst í ár er einnig meiri en mældist milli ára í júlí og ágúst í fyrra.

Það eru því vísbendingar um að ekki sé um algjöra stöðnun í neyslu að ræða og jafnvel gæti þetta gefið til kynna kraftmeiri vöxt í einkaneyslu á seinni hluta árs en við höfðum áður spáð. Flestir greiningaraðilar hafa verið sammála um að hægi á vexti einkaneyslu á árinu og spáðum við 1,8% vexti á yfirstandandi ári samkvæmt nýútgefinni Þjóðhagsspá. Áhugavert verður að sjá hver vöxtur einkaneyslu verður á þriðja ársfjórðungi þegar þær tölur birtast frá Hagstofunni síðar í mánuðinum.“

Stikkorð: verslun Kortavelta