*

föstudagur, 3. apríl 2020
Erlent 29. desember 2019 13:01

Verslun á annan í jólum dróst saman

Útsölur á annan dag jóla í Bretlandi löðuðu að sér færra fólk heldur en á sama tíma í fyrra. Samdrátturinn nam 8,6%.

Ritstjórn
Yfirleitt hefur verið margt um manninn á stórum verslunargötum líkt og Oxford-stræti er útsölurnar á annan í jólum hefjast.
epa

Útsölur á annan dag jóla síðastliðinn í Bretlandi löðuðu að sér færra fólk heldur en á sama tíma í fyrra. Fækkaði heimsóknum fólks í verslanir um 8,6%, sem er mesti samdráttur frá árinu 2011. Í Bretlandi er hefð fyrir því að verslanir hefji útsölur á annan dag jóla Eru hin svokölluðu Black Friday afslættir, aukning í netverslun og slæmt veður sögð helsta ástæða fyrir samdrættinum, að því er kemur fram í frétt BBC.

Ofangreindar upplýsingar byggja á gögnum frá fyrirtækinu Springboard, sem hefur haldið utan um tölfræði yfir fjölda heimsókna í verslanir frá árinu 2010. Gögn fyrirtækisins benda til þess að dregið hafi úr mikilvægi annars í jólum sem einn af helstu verslunardögum Breta. En gögnin sýna einnig fram á breytta neytendahegðun, en nú er algengara en áður að fólk sé seinna á ferðinni og kjósi heldur að versla þegar tekur að kvölda.    

Stikkorð: Bretland verslun útsölur