Árleg Neyslukönnun Gallup spyr meðal annars út í það hversu oft Íslendingar sæki fjóra helstu verslunarkjarnana á höfuðborgarsvæðinu, utan verslanamiðstöðvanna tveggja. Þar sést að Skeifan hefur haldið hlut sínum að mestu, en frá árinu 2009 til sumarbyrjunar í ár hefur hlutfall þeirra sem segjast heimsækja svæðið, af hvaða ástæðu sem er, sex sinnum eða oftar á ári minnkað um eitt prósentustig, niður í 53%.

Á sama tíma hefur Mjóddin sveiflast á milli 26% og 29% en Kauptúnið í Garðabæ hefur tvöfaldað hlut sinn og segjast 22% þjóðarinnar sækja svæðið sex sinnum eða oftar á ári. „Við erum alveg örugglega að vanmeta Kauptún í þessari könnun, miðað við tölur sem til eru um stærstu verslanirnar þar, Costco og Ikea, sem gefa til kynna mun fleiri heimsóknir þangað,“ segir Trausti Ágústsson sölustjóri hjá Gallup.

„Ástæðan er líklega sú að Kauptún sem hugtak yfir verslunarsvæði er eflaust ekki greipt jafnmikið í þekkingu Íslendinga og hitt þrennt. Skeifuna, Laugaveginn og Mjódd þekkja allir Íslendingar en þar sem við getum ekki spurt nánar út í verslanir á svæðunum er ekki víst að allar heimsóknir í Costco og Ikea mælist þarna.“

Götulokanir hafa slæm áhrif á verslun

Helgi Hrannar Jónsson, framkvæmdastjóri Global Blue, sem sér um endurgreiðslur til ferðamanna vegna skattfrjálsrar verslunar, segir eina af ástæðum minnkandi verslunar í miðborginni vera aukin ruðningsáhrif af þjónustunni.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um virðist aukinn straumur ferðamanna ekki vega upp á móti minnkandi verslun Íslendinga á svæðinu. Sýna tölur fyrirtækisins mikinn samdrátt í verslun ferðamanna í miðborginni síðustu tvö árin.

„Auðvitað er það skemmtileg hugmynd að vera með göngugötu í miðbænum sem færir þangað heilmikið líf sem getur komið sér vel fyrir þjónustu en það hefur hins vegar mjög skaðleg áhrif á verslun,“ segir Helgi Hrannar.

„Ef horft er á önnur svæði í heiminum, og þá skiptir ekki máli hvort það sé Suður-Evrópa þar sem borgirnar eru auðvitað allt öðruvísi uppbyggðar en þær eru hjá okkur, eða nær okkur eins og til Kaupmannahafnar, þá er þar t.d. tryggt að Strikið sé fyrst og fremst verslunargata. Veitingahúsin, kaffihúsin og allt það eru svo í hliðargötunum út frá henni, en sérstaklega á svæðinu í áttina niður að síkjunum.“

Dýrasti útstillingarglugginn

Kaupmenn í miðborginni verða einnig fyrir skaðlegum áhrifum af hækkandi fasteignaverði á svæðinu sem hafa komið til með aukinni eftirspurn eftir íbúðum og gistingu.

„Einn góður kaupmaður í miðborginni sagði mér hve þreyttur hann var orðinn á því að þurfa að borga sífellt hærri fasteignagjöld vegna þess að svo mikið væri verið að byggja í kringum hann. Þannig væri hann kominn með dýrasta útstillingarglugga á Íslandi á dýrasta svæðinu en fólk sem kemur á svæðið verslar ekkert því það finnst allt vera svo dýrt,“ benti Helgi á.

„Þetta eru tímar mikilla umskipta, alveg burtséð frá tilkomu Costco eða H&M og þannig aðila. Netsalan er að koma miklu meira inn enda Íslendingurinn almennt fljótur að tileinka sér svoleiðis. Allur fasti kostnaðurinn sem ferðamaðurinn sem hingað kemur þarf að greiða hefur hækkað, nema þá helst fargjöldin. Gistingin, ferðakostnaður, leiðsöguferðir og matur hefur hækkað mikið svo þeir hafa minna eftir til að versla fyrir og þar skera þeir niður fyrst.“

Geta ekki allt verið kaffihús

Óli Örn Eiríksson, deildarstjóri atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg, segir að kvótar borgarinnar á fjölda veitingahúsa séu farnir að hafa áhrif. „Kvótarnir eru settir á fyrst og fremst til þess að vernda verslun, og eru þeir farnir að bíta á neðsta hluta Laugavegs og Skólavörðustígs,“ segir Óli Örn.

„Síðan er borgin að skoða það að breyta kvótum á nýja svæðinu alveg við höfnina en þar hafa byggingaraðilar sett fram sýn um nýhafnarstemningu með veitingahúsum í röðum. Stóra sagan í miðborginni er auðvitað mikil fjölgun veitingastaða síðustu áratugi en það er stefna borgarinnar að á svæðinu séu virkar götuhliðar og lifandi jarðhæðir.

Það mun koma mikið af húsnæði á komandi árum á svæðinu frá Hlemmi og alla leið út á Grandagarð sem einhver starfsemi þarf að koma í. Þar gæti fólk þurft að vera skapandi í að finna hvað passar, til dæmis með vinnustofum listamanna eða einhverju öðru skemmtilegu því þetta geta ekki allt verið kaffihús.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .