Verslunarfyrirtækið Samkaup hf. hefur verið starfrækt frá árinu 1998 og liggja rætur þess að stærstum hluta í fyrrverandi verslunum kaupfélaganna. Félagið, sem er að mestu leyti í eigu kaupfélaga, hefur vaxið talsvert frá stofnun og rekur í dag 47 dagvöruverslanir víða um land undir merkjunum Nettó, Kjörbúðin og Krambúðin. Þá reka Samkaup einnig verslanir á borð við Sunnubúðina í Hlíðunum, Seljakjör og Hólmgarð í Keflavík. Verslanir Samkaupa spanna allt frá stórmörkuðum og lágvöruverðsverslunum til þægindaverslana. Starfsmenn félagsins eru um 900.

Ómar Valdimarsson hefur verið forstjóri Samkaupa frá árinu 2009. Hann er Bolvíkingur að uppruna og hefur starfað hjá Samkaup í rúmlega tuttugu ár. Hann lýsir Samkaupum sem verslunarfélagi í eigu neytenda, þar sem valfrelsi neytandans er í hávegum haft.

Hvernig lá leið þín inn í verslun og hvað hefur þú lært mest af því að starfa í verslunargeiranum?

„Eftir að ég kláraði Menntaskólann á Ísafirði tók við tveggja til þriggja ára tímabil þar sem ég dvaldi í Þýskalandi og settist á skólabekk í sjávarlíffræði við háskólann í Kiel. Síðan fer ég í Samvinnuháskólann á Bifröst og útskrifast þaðan sem rekstrarfræðingur árið 1991. Eftir það sný ég til baka í heimahagana og hóf störf sem verslunarstjóri nýrrar matvöruverslunar Samkaupa á Ísafirði þegar Samkaup hófu rekstur þar árið 1996. Það var tilbreyting, enda hafði ég aldrei unnið í verslun áður. Árið 1999 fór ég síðan suður til Keflavíkur til að starfa sem þjónustustjóri Samkaupa, varð fjármálastjóri Samkaupa árið 2001 og tók síðan við forstjórastöðunni árið 2009. Á gamals aldri kláraði ég síðan MBA frá Háskóla Íslands árið 2015. Það var frískandi og mjög hagnýtt nám.“

Hvernig virkar viðskiptamódel Samkaupa og hvernig hefur félagið verið að byggjast upp undanfarin ár?

„Samkaup var stofnað sem hlutafélag árið 1998 í kringum verslunarrekstur Kaupfélags Suðurnesja, en kaupfélagið er í dag aðaleigandi Samkaupa. Í kringum 2000 fór af stað sameiningar- og uppbyggingarferli sem stóð yfir til ársins 2009. Verslunarrekstur fleiri kaupfélaga var sameinaður undir hatti Samkaupa og voru nýjar verslanir opnaðar víðs vegar um land undir merkjum Nettó, Samkaup Úrval, Samkaup Strax og Kaskó. Samkaup sameinaðist Matbæ, félagi um verslunarrekstur Kaupfélags Eyfirðinga, árið 2001. Kaupfélag Borgfirðinga kom inn árið 2004, Kaupfélag Austur-Húnvetninga árið 2005, Kaupfélag Austur-Skaftfellinga árið 2007 og svo komu inn sjö verslanir Kaupfélags Héraðsbúa árið 2009. Einnig voru stakar verslanir keyptar, til dæmis í Grundarfirði, Búðardal, Flúðum, Laugarvatni, Hornið á Selfossi, Seljakjör í Reykjavík og Krambúðin á Skólavörðustíg.

Samkaup er þó ekki eins og hefðbundið hlutafélag. Um 35 þúsund félagsmenn kaupfélaga fá hluta af arði rekstrarins í gegnum afslætti, sem fara eftir viðskiptum hvers og eins. Samkaup er því verslunarfélag í eigu neytenda. Kaupfélög eru samvinnufélög sem eru opin öllum og við inngöngu fá félagar með- limakort sem gildir sem afsláttarkort í öllum verslunum okkar. Þannig fá meðlimir arð af rekstrinum í takt við þátttöku sína. Á síðasta ári greiddum við 30- 40% af hagnaði Samkaupa í afslátt til þessara félagsmanna. Félagslegi þátturinn um allt land er því sterkur í okkar rekstrarformi.“

Þýðir þetta að Samkaup skilgreinir sig sem landsbyggðarfélag?

„Verslanir Samkaupa eru flestar á landsbyggðinni og um 75% veltunnar koma af svæðum utan höfuðborgarsvæðisins. En við skilgreinum okkur ekki sérstaklega sem landsbyggðarfélag. Búðirnar okkar voru fyrrum verslanir kaupfélaga og kaupfélögin voru sterk á landsbyggðinni. Það útskýrir þessa stöðu.“

Þið eruð í samstarfi við samtökin Euro Coop. Hvað felst í því samstarfi?

„Euro Coop eru hagsmunasamtök samvinnufélaga – svokallaðra „cooperatives“ eða „coop“ – á sviði neytendaverslana í Evrópu. Þau eru með starfsemi í um tuttugu löndum og eru Coop félög mjög áberandi í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Við kaupum inn vörur á hagstæðum kjörum með viðskiptasamböndum sem við höfum í gegnum þessi samtök, einkum Coop í Danmörku, sem skilar sér í hagstæðu verði til neytenda. En samtökin ganga út á meira en bara viðskipti. Það er einnig lögð áhersla á þátttöku í umhverfisumræðunni, starfsmannamálum og tæknimálum.“

Nánar er rætt við Ómar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .