Verslunarrými jókst um 13,9% á árinu 2008 frá árinu áður og var alls 1.086.199 fermetrar í lok ársins, eða sem nam 3.401 fermetrum á hverja 1.000 íbúa landsins.  Þinglýstum kaupsamningum verslunarhúsnæðis fækkaði um 81,1% á árinu 2008 frá árinu áður. Gerðir voru 38 kaupsamningar verslunarhúsnæðis 2008 en 210 árið áður. Þetta kemur fram í nýrri árbók verslunarinnar.

Verslunum fækkaði árið 2008 um 39 frá árinu áður samkvæmt talningu Rannsóknaseturs verslunarinnar. Þar með varð viðsnúningur frá árunum þar á undan þegar verslunum fjölgaði stöðugt ár frá ári.

Árið 2008 störfuðu næstum 23.100 manns við verslun og viðgerðaþjónustu á Íslandi sem er 12,9% af heildarvinnuafli þjóðarinnar. Karlar voru 13.200 og konur 10.000

Árið 2008 voru meðaltalslaun þjónustu,  sölu- og afgreiðslufólks 253 þús. kr. á mánuði, samanborði við meðaltalslaun allra starfsstétta sem voru 324.000 kr.

Velta smásöluverslana dróst saman um 5,5% á föstu verðlagi árið 2008. Þar með varð viðsnúningur í þróun verslunar því árin þar á undan hafði verslun aukist ár frá ári segir í árbókinni.